Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fyrsta platan í 30 ár

Mynd: Villi Warén / SENA

Fyrsta platan í 30 ár

20.12.2017 - 13:44

Höfundar

Gunnar Þórðarson, einn ástsælasti tónlistarmaður og lagahöfundur þjóðarinnar, var að senda frá sér nýja plötu. Hún heitir „16“ og er fyrsta plata Gunnars með nýju efni í þrjátíu ár. Einvalalið söngvara, textahöfunda og hljóðfæraleikara eru honum innan handar, enda segir enginn nei þegar Gunnar Þórðarson hefur samband.

Gunnar hefur undanfarið verið að vinna að nýrri óperu en hans fyrsta ópera, Ragnheiður, var frumsýnd árið 2014. Hann stefnir á að sú nýja, sem fjallar um Tyrkjaránið, verði tilbúin til sýninga árið 2019. „Ef einhver vill sýna hana, maður gerir þetta bara upp á von og óvon,“ segir Gunnar.

Núna í sumar þurfti Gunnar að leggja vinnu við óperuna hilluna þegar hann var farin að semja of mikið. „Það komu bara svo mörg lög til mín að mér fannst ég verða gera þeim skil,“ segir Gunnar. „Þetta er alveg ótrúlegt, maður er eins og miðill.“

Mynd með færslu
16 er fyrsta plata Gunnars Þórðarssonar í þrjátíu ár

Lögin á plötunni eru sextán talsins, og dregur hún nafn sitt af því. Gunnar mat hvert lag fyrir sig og sendi þau á þá textahöfunda sem honum fannst henta hverju sinni, og sömu sögu segir hann um söngvarana. Það voru allir til í að taka þátt. „Ég fékk aldrei neitun“. Platan er komin út á geisladisk og stefnir Gunnar að því að koma henni á streymisveitur eftir áramót.

Meðal textahöfunda á plötunni má nefna Braga Valdimar Skúlason, Vigdísi Grímsdóttur, Jakob Frímann Magnússon, Egil Eðvarðsson, Hallgrím Helgason, Olgu Guðrúnu Árnadóttur og Ómar Ragnarsson.

Á plötunni syngja meðal annars Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Björgvin Halldórsson, Sigríður Thorlacius, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Stefán Hilmarsson og fleiri.

Ólafur Páll Gunnarsson ræddi við Gunnar Þórðarson í Popplandi á Rás 2.