Fyrsta ofurhetjumyndin tilnefnd sem besta mynd

Mynd með færslu
 Mynd:

Fyrsta ofurhetjumyndin tilnefnd sem besta mynd

22.01.2019 - 17:27

Höfundar

Myndin um Marvel-hetjuna Svarta pardusinn, Black Panther, varð í dag fyrsta ofurhetjumyndin sem er tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki bestu mynda.

Black Panther var alls tilnefnd til sjö Óskarsverðlauna en fyrir utan bestu myndina voru tilnefningarnar í svokölluðum tæknilegum flokkum; fyrir hljóðblöndun, leikmynd, hljóðklippingu, tónlist, lag og búningahönnun. En það sem helst er til tíðinda er tilnefning fyrir bestu mynd. Blaðamaður Variety telur tilnefninguna marka vatnaskil í ferli sem hafi hafist fyrir tíu árum, þegar tilnefningum í flokknum var fjölgað úr fimm í tíu. Það hafi gerst eftir árið 2008, og flestir telji að það megi rekja til þess að The Dark Knight, önnur Batman mynd Christophers Nolans þar sem Heath Leadger fór á kostum í hlutverki jókersins, var að margra mati svikin um tilnefningu, því hún hafi ekki verið í réttum geira, eða verið of „vinsæl“.

Tilnefningunum var fyrst fjölgað í tíu, en nú mega þær vera á milli fimm og tíu. En strax á árunum eftir 2008 fór að gæta meiri breiddar í tilnefningunum og myndir eins og District 9, Up, Inception og Toy Story 3 hlutu tilnefningu sem besta mynd, þótt ýmsum hafi þótt gengið fram hjá myndum eins og Harry Potter and the Deathly Hallows Part 2, Star Wars: The Force Awakens og Wonder Woman. Það hafi meðal annars leitt til þess að setja hafi átt á fót nýjan flokk, „Besta vinsæla myndin“, sem var síðan hætt við.

Black Panther sló margs konar aðsóknarmet á síðasta ári og halaði inn 1,35 milljarða dollara um heim allan, auk þess að fá afar góða dóma gagnrýnenda. Hún þykir um margt sérstök í því úthafi af ofurhetjumyndum sem flæðir yfir bakka bíóunnenda um þessar mundir, og kvikmyndarýnir Lestarinnar sagði til að mynda hún væri „róttæk í eðli sínu vegna þess að hún hristir upp í langþreyttri formúlu um hvítar hetjur á hvítum tjöldum.“ Hún sé stórmynd um afríska og svarta menningu og merkilega róttækt sjónarspil.

Mynd:  / 
Sjónvarpsfrétt um tilnefningarnar.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

The Favourite og Roma leiða kapphlaupið

Tónlist

Jónsi og Lady Gaga keppa um Óskarstilnefningu

Menningarefni

Menningarlegt og merkilega róttækt sjónarspil

Kvikmyndir

Afríka án nýlendustefnu fortíðarinnar