Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Fyrsta íslenska rafbókin

12.11.2010 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrsta íslenska rafbókin er nú komin á markað. Framkvæmdastjóri Eddu útgáfu boðar frekari rafbókaútgáfu. Hann óttast ekki ólöglegt niðurhal á rafbókum.

 


Rafbækur hafa verið að ryðja sér til rúms síðustu misseri. Netbókaverslunin Amazon hefur verið stór á þessum markaði - selur rafbók sem nefnist Kindle.Einnig er hægt að kaupa bækur fyrir nýjustu afurð Apple - spjaldtölvuna I-pad. Fram að þessu hefur einungis verið hægt að kaupa erlendar rafbækur. Nú hefur Edda útgáfa hinsvegar gefið út bók Roberts M Pirsig-s Zen og listin um viðhald vélhjóla í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar á rafrænu formi. Jón Axel Ólafsson, framkvæmdastjóri Eddu segir frekari útgáfu framundan.


,,Við erum núna að undirbúa fleiri bækur, þrjár Bangsimonbækur og Disney-bækur þannig að á komandi mánuðum mun fjölga á listanum yfir bækur sem hægt verður að nálgast á I-pad og I-phone."


Bókina er hægt að kaupa í gegn um vefverslun Apple - I-tunes. Ólöglegt niðurhal á tónlist er orðið mikið vandamál. Jón Axel óttast hinsvegar ekki slíkt varðandi rafræna bókaútgáfu.


,,Ég held að til lengri tíma litið sé þetta mjög spennandi tækifæri fyrir bókaútgefendur að sjá að þetta muni stækka markaðinn og auka neysluna."