Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fyrsta flugi Wow Air frestað fram til desember

09.10.2019 - 01:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrsta áætlunarflug nýs Wow air verður ekki fyrr en í desember. Vísir greinir fyrst frá þessu og hefur eftir yfirlýsingu Michele Ballarin til vefmiðilsins FlightGlobal. Til stóð að fyrsta ferð Wow Air yrði í þessum mánuði, en nú segir Ballarin að miðasala hefjist í nóvember og fyrsta flug verði í desember.

FlightGlobal segir að engar upplýsingar séu um áætlanir, áfangastaði eða flugleiðir nýja Wow Air í yfirlýsingu Ballarin. Í yfirlýsingunni segir að síðan Wow Air var keypt sé búið að vinna í aðlögun á markaði. Samdráttur á flugmarkaði hafi orðið til þess að fleiri flugvélar séu á lausu nú en síðla sumars. Wow Air ætli að nýta tækifærið og verða sér úti um flugvélar.

Ballarin hélt blaðamannafund á Hótel Sögu 6. september þar sem hún tilkynnti um kaup USAerospace Associates á eignum úr þrotabúi Wow Air. Þar sagði hún að hún áformaði að hefja flug á milli Íslands og Dulles flugvallar í Washington þegar í þessum mánuði. 

FlightGlobal hefur eftir talsmanni flugvallaryfirvalda í Washington að þau hafi átt fund með fyrirtæki Ballarin í ágúst. Síðan þá hafi flugvallayfirvöld ekkert heyrt frá þeim.