Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrsta ebólutilfellið greinist í milljónaborg

In this photo taken Tuesday, June 11, 2019 and released by the International Rescue Committee (IRC), a sign is attached to a window of a new Ebola treatment unit currently under construction at the Kihihi Health Centre IV in Kanungu district, western Uganda, near the border with Congo. Uganda's health ministry said late Tuesday, June 11, 2019 that a child in Uganda has tested positive for Ebola in the first cross-border case of the deadly virus since an outbreak started in neighboring Congo last year. (Ben Wise/International Rescue Committee via AP)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - International Rescue Committee
Fyrsta staðfesta ebólusmitið greindist í milljónaborginni Goma í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó á sunnudag. Skæðasti ebólufaraldur sem upp hefur komið í Kongó hefur nú geisað í tæpt ár og lagt yfir 1.600 manns í valinn í landinu austanverðu. Hingað til hefur tekist að halda veirusýkingunni frá stærstu þéttbýlisstöðum á svæðinu, þar sem smitleiðir eru greiðar og mannfjöldinn svo mikill að ómögulegt getur reynst að hefta útbreiðslu hennar.

Þetta fyrsta staðfesta tilfelli í Goma, þar sem tvær milljónir búa, greindist þó snemma og var maðurinn óðara fluttur í viðeigandi einangrunarstöð utan borgarinnar til meðhöndlunar.

Bjartsýn á að tekist hafi að hindra frekari útbreiðslu

Hinn smitaði er prestur sem mun hafa veikst á þriðjudag og fór frá bænum Butembo til Goma á sunnudag, þar sem hann fór beint á heilsugæslu til að leita sér lækningar. Heilbrigðisyfirvöld segja að búið sé að hafa uppi á öllum sem voru með honum í rútunni og eru bjartsýn á að hafa kæft hættuna á að ebóla gjósi upp í Goma strax í fæðingu. „

Vegna þess hversu hratt það gekk að greina og einangra sjúklinginn og finna alla rútufarþegana frá Butembo, þá er hættan á að vírusinn berist út um alla Goma-borg lítil,“ segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.

Butembo er annar tveggja bæja sem orðið hafa hvað verst úti í yfirstandandi faraldri. Sérfræðingar heilbrigðisyfirvalda og hjálparsamtaka á svæðinu hafa lengi óttast að ebólan kunni að berast þaðan eða frá næsta nágrenni til Goma, og hafa gert viðeigandi ráðstafanir til að minnka líkurnar á allsherjarfaraldri í borginni.