
Fyrsta ebólutilfellið greinist í milljónaborg
Þetta fyrsta staðfesta tilfelli í Goma, þar sem tvær milljónir búa, greindist þó snemma og var maðurinn óðara fluttur í viðeigandi einangrunarstöð utan borgarinnar til meðhöndlunar.
Bjartsýn á að tekist hafi að hindra frekari útbreiðslu
Hinn smitaði er prestur sem mun hafa veikst á þriðjudag og fór frá bænum Butembo til Goma á sunnudag, þar sem hann fór beint á heilsugæslu til að leita sér lækningar. Heilbrigðisyfirvöld segja að búið sé að hafa uppi á öllum sem voru með honum í rútunni og eru bjartsýn á að hafa kæft hættuna á að ebóla gjósi upp í Goma strax í fæðingu. „
Vegna þess hversu hratt það gekk að greina og einangra sjúklinginn og finna alla rútufarþegana frá Butembo, þá er hættan á að vírusinn berist út um alla Goma-borg lítil,“ segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.
Butembo er annar tveggja bæja sem orðið hafa hvað verst úti í yfirstandandi faraldri. Sérfræðingar heilbrigðisyfirvalda og hjálparsamtaka á svæðinu hafa lengi óttast að ebólan kunni að berast þaðan eða frá næsta nágrenni til Goma, og hafa gert viðeigandi ráðstafanir til að minnka líkurnar á allsherjarfaraldri í borginni.