Fyrsta ástin oft sjúk ást

Mynd með færslu
 Mynd:

Fyrsta ástin oft sjúk ást

04.03.2019 - 16:45
„Það sem sló mig mest við að fá þessar sögur sendar er hversu algengt það er að einstaklingar virði það ekki þegar kærasti eða kærasta vill ekki sofa hjá þeim,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir eitt af andlitum herferðarinnar Sjúk ást sem Stígamót hleypti af stokkunum í dag, mánudag.

 

Þetta er í annað sinn sem herferðin fer af stað en hún miðar að því að fræða ungt fólk um skaðlega hegðun í nánum samskiptum og ástarsamböndum. Slagorð átaksins í ár er: „Ég virði mín mörk og þín.“

Auk Sólborgar eru andlit herferðarinnar í ár eru þau Binni Glee, Aron Mola og Anna Lára Orlowska. Sólborg hefur meðal annars haldið úti Instagram aðganginum Fávitar þar sem hún tekur við og safnar saman skjáskotum af samskiptum fólks á netinu og sögum af virðingarleysi og ofbeldi á milli kynjanna.

 

Mynd með færslu
Kynningarefni herferðarinnar. Frá vinstri Anna Lára Orlowska, Aron Már Ólafsson, Brynjar Steinn Gylfason og Sólborg Guðbrandsdóttir

 

„Sjúk ást er ótrúlega þarft átak. Við höfum fengið að sjá með Fávitar instagramminu hvað það er mikið um ofbeldi og vanvirðingu í samskiptum,“ segir Sólborg

Þó átakið beinist að ungu fólki segir Sólborg að það sé þó ekki bara ungt fólk sem þurfi að taka sig á í samskiptum, til dæmis á internetinu. „Ég held að við séum miklu meira að nota netið og leyfum okkur að segja það sem okkur dettur í hug. Það er oft þannig að ungir krakkar eru að koma á netið og byrja í samskiptum við hitt kynið, eða sama kyn, og fara inn í ákveðið hegðunarmynstur sem þau halda að eigi að vera. Eins og það sé einhver félagsþrýstingur að tala á ákveðna vegu. En svo sjáum við fullorðið fólk tala á netinu af þvílíkri vanvirðingu um hvort annað. Hvar eru fyrirmyndirnar og hvar á unga fólkið að læra?“ spyr Sólborg.

 

Mynd með færslu

 

Hún segir að oft byrji markalaus og slæm samskipti í fyrstu samböndum fólks. Fyrsta ástin litist því jafnvel af ofbeldi og að vaðið sé yfir mörk einstaklinga. „Ég hef fengið sendar sorglega margar sögur sem sögðu „kærastinn minn sefur hjá mér þegar honum sýnist eða suðar þegar ég er búin að segja nei,“ það er þessi hugmynd að makinn skuldi okkur eitthvað því hann er maki okkar,“ segir Sólborg.

Að baki verkefninu í ár standa Stígamót í samstarfi við sautján framhaldsskóla á landinu og Samfés. Á næstu vikum er stefnt að því að 4500 ungmenni fái fræðslu í félagsmiðstöðvunum sínum um átakið og skilaboð þess. Heimasíða átaksins er sjúkást.is