„Það eru um tíu prósent af þeim sem greinast hjá okkur sem eru undir 65 ára aldri, það er að segja einkenni byrja fyrir 65 ára aldur. Við köllum það snemmkominn sjúkdóm. Af um það bil 250 sem greinast hjá okkur á ári myndu vera svona 30 manns eða svo sem eru á vinnufærum aldri því Íslendingar vinna líka margir hverjir fram yfir sjötugt.“
Segir Jón Snædal, öldrunarlæknir og yfirlæknir Minnismóttöku Landspítalans. Heilabilunarsjúkdómar eru í dag greindir fyrr en áður, þó eru alltaf einhverjir sem greinast mjög seint, hafa hunsað einkenni, ekki tekið eftir þeim eða neitað að horfast í augu við þau.
Fann að eitthvað var að
Erla Gunnarsdóttir er fædd árið 1955 og verður 62 ára í mars. Hún er hjúkrunarfræðingur og starfaði síðast á deild 32 A. Bráðamóttökudeild Landspítalans fyrir fólk með geðrænan vanda. Líf Erlu tók stakkaskiptum fyrir um tveimur árum þegar hún greindist með Alzheimer-sjúkdóminn. Í kjölfarið hætti hún að vinna.
„Ég var búin að gera mér grein fyrir því í dálítinn tíma að það væri eitthvað að mér, ég vissi bara ekki hvað það var. Ég var stirðari í hreyfingum, ég var seinni að hugsa og mundi ekki jafnvel svona hluti í tölvunni, sem ég kunni alveg áður. Svo var ég óskaplega þreytt, búin að vinna vaktir í mörg ár, mikið kvöldvaktir. Ég var óskaplega þreytt þegar ég endanlega er send til trúnaðarlæknis.“