Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fyrst til að ganga framhjá mati dómnefndar

30.05.2017 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Á. Andersen er fyrsti ráðherra dómsmála sem fer gegn tillögu dómnefndar um skipan dómara og leggur til að aðrir umsækjendur verði fyrir valinu en nefndin taldi hæfasta. Þrengt var að valdi ráðherra til að skipa dómara með lagabreytingu árið 2010. Þá var bætt inn ákvæði í lög um umsagnarferli þar sem dómnefnd metur hæfi umsækjenda um dómaraembætti.

Fyrri ráðherrar hafa frá árinu 2010 skipað dómara í samræmi við umsögn dómnefndarinnar. Sá munur er þó á að í sumum þeirra tilfella gat ráðherra valið milli nokkurra umsækjenda sem nefndin mat jafn hæfa en nú taldi dómnefndin að  fimmtán væru hæfastir – jafn margir og dómarastöðurnar við Landsrétt. Annar munur er sá að bráðabirgðaákvæði vegna stofnunar Landsréttar kveður á um nokkuð breytta afgreiðslu eftir að dómnefnd skilar af sér.

Minna valfrelsi ráðherra síðustu ár

Lögum um dómstóla var breytt árið 2010. Í ræðum nokkurra þingmanna kom fram að breytingum á lagaákvæðum um skipan dómara væri ekki síst ætlað að koma í veg fyrir að ráðherra færi gegn mati á hæfi umsækjenda. „Frjálst val dómsmálaráðherra hefur á stundum gengið þvert á umsagnirnar og í einu tilviki brotið gegn jafnréttislögum,“ sagði Atli Gíslason, þingmaður Vinstri-grænna, í umræðu um frumvarpið á Alþingi í febrúar 2010. Í umræðunum var meðal annars vísað til gagnrýni á fyrri skipanir dómara. Sumum þeirra var andmælt opinberlega þegar grunur vaknaði um að flokkstengsl eða önnur tengsl hefðu áhrif á hverjir væru skipaðir í embætti dómara.

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Breytingin árið 2010 fólst í því að ráðherra gæti ekki farið gegn mati dómnefndar sem mæti hæfi umsækjenda, nema hann fengi til þess samþykki Alþingis. Þannig getur ráðherra skipað dómara úr röðum umsækjenda sem dómnefnd metur hæfasta. Hann getur hins vegar ekki skipað umsækjanda, sem telst ekki í hópi þeirra hæfustu, nema með því að leggja tillögu um slíkt fyrir Alþingi. Ef Alþingi samþykkir skipan umsækjanda sem var ekki meðal þeirra hæfustu verður sá umsækjandi skipaður dómari. Ef Alþingi veitir ekki samþykki sitt verður ráðherra almennt að halda sig við tillögur nefndarinnar. Nú bregður hins vegar svo við að bráðabirgðaákvæði í lögum um dómstóla veitir undanþágu frá þessu að því er varðar stofnun Landsréttar. Hafni Alþingi upphaflegri tillögu ráðherra getur hann lagt fram nýja tillögu um dómara.

Nokkuð var rætt um það árið 2010 og aftur við lagabreytingu vegna skipunar Landsréttar í fyrra hvort miða ætti við einfaldan meirihluta Alþingis eða aukinn meirihluta, til að samþykkja frávik ráðherra frá mati dómnefndar. Niðurstaðan var að einfaldur meirihluti dygði. Það var meðal annars með þeim rökum að ef gerð væri krafa um tvo þriðju hlutu atkvæða á Alþingi mætti skilja það sem svo að dómnefndin en ekki ráðherrann færi með veitingavaldið.

„Ótrúleg tilviljun“

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu í morgun að henni hefði þótt „ótrúleg tilviljun“ að aðeins fimmtán væru metnir hæfastir í fimmtán embætti. Hún sagði sitt mat að þessir fimmtán væru vissulega hæfir en sjálf hefði hún tilgreint 24 sem væru hæfastir til starfsins. Hún fann sérstaklega að því að reynsla umsækjenda af dómarastörfum væri ekki metin sem skyldi.

Niðurstaða Sigríðar var að leggja til að ellefu þeirra sem dómnefndin mat hæfasta yrðu skipaðir dómarar. Hún skipti fjórum út og tilnefndi nýja í þeirra stað.

Alþingi kýs um dómaraefnin

Alþingi þarf nú í fyrsta sinn að taka afstöðu til þeirra sem ráðherra vill skipa í embætti dómara. Það hefði gerst jafnvel þó Sigríður hefði viljað skipa þá fimmtán umsækjendur sem dómnefndin mat hæfasta. Ástæðan er bráðabirgðaákvæði í lögum um dómstóla vegna stofnunar Landsréttar. Þar var kveðið sérstaklega á um að bera þyrfti hverja og eina skipun dómara við Landsrétt í fyrstu umferð undir Alþingi. „Í ljósi þess að skipaðir verða samtímis 15 dómarar er eðlilegt að tryggja aðkomu fleiri en eins handhafa ríkisvalds að því,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu.

Ráðherra var því skylt að bera tillögur sínar undir Alþingi. Ljúka á skipan dómara fyrir 1. júlí. Dómnefndin fékk umsóknir um dómaraembættin til yfirferðar 2. mars og skilaði ráðherra umsögn sinni í síðustu viku. Þar var farið yfir vinnuferli nefndarinnar, farið yfir feril umsækjenda og hæfni þeirra á ýmsum sviðum metin. Ráðherra skilaði Alþingi tillögum sínum í gær með fylgiskjali þar sem hún færði rök fyrir niðurstöðu sinni. Tillögur ráðherra þarf að samþykkja eða hafna á morgun í síðasta lagi. Tímamörkin voru ekki síst valin svo hægt væri að skipa í dómarastöður við aðra dómstóla sem kynnu að losna ef þeir dómarar yrðu skipaðir í Landsrétt.

Í lögum um dómstóla frá í fyrra segir að ráðherra eigi að gera tillögu um hverja skipunina fyrir sig fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki algengi ekki einhverja tiltekna skipun eigi ráðherra að leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar. Því gæti svo farið að dómsmálaráðherra þyrfti að gera aðra eða aðrar tillögur um dómara í landsrétt. Það er að segja ef Alþingi hafnar því að samþykkja einhverjar tillögur hennar. Þetta er ólíkt því sem á almennt við um skipun dómara, því þá er ráðherra bundinn af mati dómnefndar ef Alþingi samþykkir ekki tillögu um önnur dómaraefni en nefndin mat hæfust.

Mynd með færslu
 Mynd: Ruv - RUV
Ástráður Haraldsson.

Ráðherra gagnrýndur fyrir breytingarnar

Ákvörðun ráðherra að tilnefna að hluta aðra umsækjendur en þá sem dómnefndin mat hæfasta mætti gagnrýni í gær. Ráðherra segist þó vera í fullum rétti innan lagarammans til að fara þá leið sem hún hefur farið í tillögum sínum um skipan dómara. „Lögin eru alveg skýr. Þau heimila ráðherra að víkja frá mati nefndarinnar með aðkomu Alþingis. Það er alveg skýrt. Þess utan tel ég auðvitað alveg útilokað að telja það geta verið ólögmætt sjónarmið að bæta inn fjórum dómurum með áratuga reynslu af dómstörfum. Það getur varla verið ólögmætt,“ sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í frétt RÚV.is í morgun.

Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, sagði í fréttum RÚV í gær að ráðherra hefði farið á svig við lög með því að leggja til skipun umsækjenda sem ekki væru metnir í hópi þeirra hæfustu. „Hæstiréttur hefur í einhverjum tilvikum fjallað um dómaraskipanir og hefur fjallað mjög ítarlega um það hvaða kröfur eru gerðar til ráðherra ef hann hyggst víkja frá þessum faglegu niðurstöðum nefndarinnar og ég get ekki séð að ráðherrann sé yfirleitt að gera tilraun til að mæta þeim kröfum sem Hæstiréttur hefur lagt upp í málum af þessum toga,“ sagði Reimar.

Ástráður Haraldsson, einn fjögurra umsækjenda sem dómnefndin mat hæfasta en ráðherra tilnefnir ekki, sendi Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, opið bréf í gær. Þar sagði hann Sigríði dómsmálaráðherra reyna að afla sér heimildar Alþingis fyrir ólögmætri embættisfærslu. Hann sagði frávik ráðherra frá tillögu dómnefndarinnar engin veginn uppfylla kröfur sem gera þyrfti til þess sem færi með veitingarvaldið. Ástráður sagði rökstuðning ráðherra ekki geta verið á almennum nótum eða tekið til hóps manna sameiginlega eins og dómsmálaráðherra hafi gert í bréfi sínu til Alþingis.

Ástráður fann meðal annars að því að ráðherra hafi sent Alþingi tillögu um að fimmtán umsækjendur yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt. Með þessu telur hann gengið framhjá því að í lögum segir að ráðherra eigi að bera „hverja skipun“ fyrir Alþingi til samþykktar. Í erindi ráðherra hafi verið gerð tillaga um hóp en ekki einstaklinga. Því beri að hafna erindinu í heild sinni.

Tvenns konar gagnrýni

Skipta má gagnrýninni á ákvörðun dómsmálaráðherra í tvennt. Annars vegar að hún hafi tilnefnt hóp en ekki einstakling og hings vegar að hún hafi ekki rökstutt ákvörðun sína nægilega.

Lögfróðir menn sem fréttastofa hefur rætt við segja að fyrri gagnrýnin byggi sennilega á misskilningi um hvernig málið sé lagt fram. Alþingi eigi eftir að greiða atkvæði um skipan hvers dómara fyrir sig og því sé þetta í samræmi við lög.

Líklegra þykir að spurningar kynnu að vakna um rökstuðning ráðherra fyrir því að breyta út af tillögu dómnefndarinnar. Fylgiskjal ráðherra til Alþingis er tvær blaðsíður. Til samanburðar var umsögn dómnefndarinnar 117 blaðsíður. Því gæti vaknað sú spurning að ekki sé nægilega gætt að rökstuðningi. Á móti kemur að alla jafna geta þeir umsækjendur sem ekki hafa hlotið embætti eða starf óskað eftir rökstuðninginn fyrir ákvörðuninni eftir á. Slíkt gæti átt við í þessu tilfelli. Þá má ekki gleyma að ráðherra fór á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag og gerði grein fyrir sinni afstöðu. Þar kann að koma fram ítarlegri rökstuðningur en í fylgiskjalinu sem Alþingi fékk með tillögu ráðherra í gær.

Leiðrétt: Skipun dómara þarf að ljúka fyrir 1. júlí en ekki 1. júní eins og sagði upphaflega. Frestur til þess var framlengdur með lagasetningu í vetur.