Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Fyrst og fremst barn en ekki útlendingur“

20.03.2018 - 08:22
Mynd: RÚV / RÚV
Ekkert Norðurlandanna stenst fyllilega alþjóðlegar og innlendar skuldbindingar um að tryggja réttindi barna í leit að vernd, þar á meðal Ísland. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF sem kynnt verður í dag. Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur UNICEF á Íslandi, segir að eftir að ný lög sem tóku gildi um þar síðustu áramót standist kröfur um réttindi barna, samkvæmt Barnasáttmála SÞ, en að það virðist vanta upp á almennt á Norðurlöndunum að þau virki í framkvæmd.

„Það sem líka er bent á er að barnaverndaryfirvöld þurfi að stíga fastar inn í þetta ferli og tryggja enn betur að réttindi barna séu virt í gegnum allt ferlið. Þar þurfi að skína í gegn það sjónarmið að barn sé fyrst og fremst barn en ekki útlendingur.“
    
Eva segir að þetta virðist eiga sérstaklega við á Norðurlöndunum þar sem flóttafólki fjölgaði hvað mest fyrir nokkrum árum. Verndin hafi verið ágæt fyrir þá fjölgun en við hana hafi komið rót á kerfið. Verndin sé ekki jafn rík og áður.

Hafa ekki kost á að áfrýja niðurstöðu

Eva segir að á Íslandi geri lögin ráð fyrir heildstæðu mati í aldursgreiningu en ekki eingöngu tanngreiningu og líkamsgreiningu. Leggja þurfi heildstætt mat á félagslegar aðstæður og sálfræðilega stöðu barnanna. „Síðan er líka bent á það sem lögin okkar leyfa ekki en ættu kannski að leyfa og það er að börnin fái tækifæri til að áfrýja niðurstöðunni. Þannig að þegar það er komin einhver niðurstaða þá fái þau kost á því að áfrýja niðurstöðunni og fá annað mat. Það virðist vera að þegar þetta mat liggur fyrir að þá er engin leið til baka.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV