Fyrrverandi vopnabræður berjast í Suður-Súdan

02.03.2017 - 15:50
epa05282893 South Sudan President Salva Kiir (R) and former rebel leader and First Vice-President Riek Machar (L) attend a ceremony after a new unity government was sworn-in, Juba, South Sudan, 29 April 2016. South Sudan President Salva Kiir named a new
 Mynd: EPA
Verði ekkert að gert búast Sameinuðu þjóðirnar við því að nærri fimm milljónir íbúa Suður-Súdan þurfi mataraðstoð í sumar til að komast af. Þar svelta þegar hundrað þúsund manns og milljón er á barmi hungursneyðar. Sameinuðu þjóðirnar lýstu því opinberlega fyrir skömmu að hungursneyð ríkti í sumum sýslum Unity-ríkis, þar deyr fólk úr sulti. Neyðin í Suður-Súdan, landi sem er frjótt og á olíu, er af manna völdum og ekki útlit fyrir að vargöldinni linni í bráð. 

Suður-Súdan lýsti yfir sjálfstæði sínu frá Súdan eftir að íbúarnir greiddu því atkvæði í ársbyrjun 2011. Til varð nýtt ríki, með hátt í tíu milljónir íbúa en þeir skiptast í á sjöunda tug ættbálka. Ekki leið á löngu þar til súrnaði milli tveggja stærstu þjóðarbrota landsins sem höfðu myndað bandalag í sjálfstæðisbaráttinnun, Dinka og Núer.

Dinka og Núer takast á

Borgarastríð, braust út í Suður-Súdan skömmu eftir að sjálfstæðinu var lýst yfir og þar tókust á fylgismenn núverandi forseta Salva Kiir og fyrrverandi varaforseta Rieks Machars. Kiir og Machar tilheyra hvor sínum ættbálknum, Kiir Dinka en Machar Nuer. Ragnheiður Kolsöe, sem hefur verið langdvölum í Suður-Súdan,  kom þar fyrst 2010 til að vinna á vegum Sameinuðu þjóðanna í verkefnum í aðdraganda sjálfstæðis. Hún segir að íbúar þessa yngsta ríkis heims séu ekki einsleitur hópur. 

Friðarsamkomulag gert 2015 dugði skammt

Traust milli Kiir og Machars var farið að þverra áður en kom til átaka 2013 og má líkja við þjóðarmorð á Núer-fólki í höfuðborginni Júba. Allir Núerar sem gátu flúðu þaðan, leituðu verndar á svæðum í skjóli Sameinuðu þjóðanna og eru þar flestir enn segir Ragnheiður. Machar flúði land og átökin færðust frá höfuðborginni til norðurs til þriggja fylkja í norðri, Unity, Upper Nile og Djongle. Sumarið 2015 var skrifað undir friðarsáttmála, sem hefur illa haldið. Machar og Kiir voru ekki einu sinni í sama landinu þegar það var gert. Átökin héldu áfram og í júlí í fyrra flúði Machar enn úr landi, eftir að hefa sest á varaforsetastólinn aftur í apríl. Machar gekk með sveitum sínum í fjörutíu daga til Kongó en er nú í útlegð í Suður-Afríku. Það er erfitt að draga einföldum dráttum hverjir fara með stjórn og hverjir eru í stjórnarandstöðu í landinu. 

Komust í lykilstöður eftir að sjálfstæði var fengið

Hið pólitíska landslag er þannig langt frá því að vera einfalt, í rauninni er ekki mikill munur á Dinka og Núer, segir Ragnheiður og hvor bálkur um sig skiptist líka upp í marga hópa. Dinka og Núer fóru fóru fyrir í baráttunni fyrir sjálfstæði frá Súdan og komust í lykilstöður í stjórn og her landsins eftir að það var fengið, en þegar þeirri baráttu varð aftur grunnt á því góða. Ríkið var stofnað með fulltingi og stuðningi alþjóðasamfélagsins, ekki síst Breta, Bandaríkjamanna og Norðmanna, segir Ragnheiður og þangað var veitt miklu fé en kannski var hendinni sleppt af því of snemma.

Suður-Súdan gæti fætt íbúa sína ef þar væri friður

Átökin sem voru í fyrstu bundin við höfuðborgina hafa breiðst út og ofbeldið beinst í vaxandi mæli að almennum borgurum. Skiptir þar litlu hvort eru stuðningsmenn eða andstæðingar stjórnarinnar og úr verður vítahringur ofbeldisverka og hefnda. Þegar landbúnaðurinn í suðrinu hrynur er eins og fótunum sé kippt undan landinu. Ragnheiður er ekki vongóð um að úr greiðist á næstu árum. Vonarglætan sem fylgdi friðarsáttmálanum sem gerður var árið 2015 slokknaði, staðan er orðin flóknari og hatrið hefur vaxið.

 

 

I

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi