Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu handtekinn

23.11.2019 - 15:08
Mynd: Stefán Drengsson / RÚV
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn á spillingu og og ætluðum mútugreiðslum í namibískum sjávarútvegi, meðal annars frá Samherja.

Stundin greindi fyrst frá handtökunni og vísaði í útvarpsþátt í Namibíu. 

The Namibian segist hafa fengið handtökuna staðfesta hjá Sebastian Ndeitunga, yfirmanni namibísku lögreglunnar. Einnig hafi kaupsýslumaðurinn Ricardo Gustavo verið handtekinn en hann var samstarfsmaður James Hatuikulipi, sem er einn þeirra sem kallaðir hafa verið hákarlarnir í fréttum af starfsháttum Samherja í Namibíu. „Það er rétt að við höfum handtekið þá. Við höfum enn 48 klukkustundir til að tryggja framgang rannsóknarinnar.“

Bernhard Esau sagði af sér í síðustu viku ásamt dómsmálaráðherra landsins, Sacky Shangala. 

Mynd: Stefán Drengsson / RÚV

Tvímenningarnir hafi rétt á því að sækja um að fá lausn úr haldi gegn tryggingu. Þeir eru grunaðir um að hafa tekið þátt í ráðabruggi um mútur fyrir úthlutun kvóta. Þær fjárhæðir nemi að minnsta kosti 150 milljónum namibískra dollara á fjórum árum. 

The Namibian greinir frá því að þriggja hátt settra manna til viðbótar sé leitað í tengslum við rannsókn málsins. Ndeitunga hafi neitað að staðfesta nokkuð í þeim efnum. 

Paulus Noa, framkvæmdastjóri ACC, spillingarlögreglunnar í Namibíu, staðfestir í samtali við fréttastofu RÚV, að þremenningarnir séu þeir sem voru kallaðir hákarlarnir í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um Samherjaskjölin; Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, James Hatuikulipi og frændi hans Tamson Fitty Hatuikulipi, sem gegndu framkvæmdastjórastöðum hjá Investec Asset Management. Sá síðarnefndi er tengdasonur sjávarútvegsráðherrans fyrrverandi.