Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrrum húsmæðraskóla breytt í hótel

14.04.2018 - 21:47
Unnið er hörðum höndum að því að breyta húsi sem gegndi áður hlutverki húsmæðraskóla Borgfirðinga í hótel. Hönnuður breytinganna segir að leitast sé við að mæta kröfum nútímahótelgesta um leið og saga hússins sé höfð í heiðri.

Húsmæðraskólinn að Varmalandi var stofnaður árið 1946 að frumkvæði borgfirskra kvenna. Þar var svo hússtjórnarskóli fram á 9. áratug síðustu aldar. Enginn rekstur var í húsinu þegar Borgarbyggð seldi það árið 2015 og nú er unnið að því að breyta því í hótel.

„Þetta er rosalega skemmtileg staðsetning, mikið hérna í kring, mikið af afþreyingu, Víðgelmir, einn stærsti hellir á Íslandi, Deildartunguhver sem er vatnsmesti hverinn og svo er stutt í Into the glacier og hægt að fara í dagsferðir á Snæfellsnes, og okkur fannst þetta bara mjög hentug staðsetning fyrir hótel,“ segir Magnús Már Hauksson, aðstoðarmaður eigenda Hótels Varmalands.

Guðjón Samúelsson, fyrrum húsameistari ríkisins, teiknaði húsið og undanfarið hefur verið lögð vinna í að laga húsið að kröfum nútímahótelgesta. „Þetta er alltaf „konfliktið“ að halda í það gamla, virða og varðveita það gamla, en síðan að mæta kröfum verkkaupa. En við höfum átt í góðu samstarfi og leist þetta farsællega tel ég,“ segir Þorsteinn Aðalbjörnsson, byggingafræðingur hjá Artstone.

Þorsteinn segir að áður fyrr hafi sveitabæir styrkt skólann og því verði áfram haldið í heiðri: „Öll herbergin fengu nöfnin á sveitabæjunum. Við ætlum að halda því. Þetta er sextíu herbergi og við tókum nöfn af sextíu bæjum í kring og hvert herbergi fær sitt nafn.“

Nú þegar er farið að bóka gistingu á hótelinu og það hefur einnig verið bókað fyrir ættarmót og brúðkaup. „Það er stefnt að því að opna þetta hótel í maí og fyrstu hópar eru að koma svona í enda maí, júní,“ segir Magnús Már.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður