Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrrum forsætisráðherra dæmdur í fangelsi

07.07.2018 - 01:49
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Nawaz Sharif fyrrum forsætisráðherra Pakistan og formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins hefur verið dæmdur til 10 ára fangelsisvistar og greiðslu 8 milljóna punda sektar af sérstökum spillingardómstól.

Sharif hefur þrisvar gengt embætti forsætisráðherra Pakistan en nafn hans mátti finna í Panama-skjölunum og markaði það upphaf spillingarmáls sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir þátt sinn í og varðar eignarhald og tekjur af glæsiíbúðum í London sem hann mun ekki hafa gefið upp til skatts. Lögfræðingar hans halda því fram að fjárfestingarsjóður frá Katar hafi gefið honum eignirnar upp í skuld við föður hans, Mian Muhammad Sharif. Hann hafi í kjölfarið gefið börnum sínum íbúðirnar.

Dóttir hans, Maryam, var einnig dæmd til 7 ára fangelsisvistar og til greiðslu 2 milljóna punda sektar. Hún hefur lengi verið talin pólitískur arftaki föður síns en hún getur ekki boðið sig fram í kosningunum sem fram fara þann 25. júlí vegna dómsins. Talið er að stjórn flokks forsætisráðherrans fyrrverand, PML-N, færist í hendur Shahbaz, bróður hans. Hann er ríkisstjóri Punjab, fjölmennasta héraðs Pakistans. Samband þeirra bræðra þykir nokkuð stormasamt.

Talið er að Sharif áfrýi dómnum en málsmeðferðin hefur frá upphafi sætt gagnrýni úr röðum flokksmanna hans og gefið í skyn að um fyrir fram ákveðna niðurstöðu hafi verið að ræða. Sharif heldur því fram að dómstólar landsins, í samstarfi við herinn, vilji losna við hann úr stjórnmálum.

Sharif hefur lýst því yfir að hann muni snúa aftur til Pakistan frá London þar sem hann dvelur nú, í íbúðunum umræddu. Það muni hann hins vegar ekki gera fyrr en að eiginkona hans, Kulsoom, hefur náð meðvitund að nýju en hún er í læknismeðferð vegna krabbameins í hálsi.

Þingkosningar fara fram í Pakistan síðar í mánuðinum en flokkur Sharif tilheyrir samsteypustjórn sem fer nú með völd í landinu.

Fjarvera Sharif hefur haft slæm áhrif á gengi flokks hans í skoðanakönnunum. Samkvæmt nýjustu könnunum Gallup eru PML-N og PTI, stærsti stjórnarandstöðuflokkur Pakistan, hnífjafnir en krikketstjarnan Imran Khan er leiðtogi hans.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV