Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fyrri stjórn kom á friði

Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hélt erindi á ráðstefnu Íslenskra orkurannsókna á milli þess sem hann stýrði ríkisráðsfundum á Bessastöðum í dag. Á ráðstefnunni sagði forsetinn að fyrri ríkisstjórn hefði tekist að koma á friði eftir mótmæli og elda við Alþingishúsið.

„Gleymið því ekki að fyrir rúmum fjórum árum brunnu hér eldar í miðborginni og lögreglan varð að verja Alþingishúsið dag og nótt, verja Seðlabankann til að koma í veg fyrir að fjöldinn ruddist inn, verja stjórnarráðið. Og enginn okkar vissi að morgni, hvort okkar samfélag, lýðræði eða efnahagslíf myndi verða svo sundurtætt að kvöldi að það yrði ekki hægt að raða því saman á ný. Menn geta haft alls konar skoðanir á árangri þeirrar ríkisstjórnar sem fór formlega frá fyrir fáeinum klukkustundum síðan en engu að síður erum við í dag í þeim sporum rólegheita og öryggis að forsetinn getur leyft sér koma hérna á ráðstefnu milli ríkisráðsfunda af því að það er ekki asi á nokkrum manni, en fyrir rúmum fjórum árum skiptu klukkutímar öllu", sagði Ólafur Ragnar Grímsson.