Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fyrirvarar við húsnæðisfrumvörp

22.01.2016 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að það eigi ekki að koma á óvart að þingflokkurinn sé ekki alls kostar sáttur við húsnæðisfrumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra. Stefnur flokkanna séu ólíkar. Fjármálaráðherra segir að þessi útfærsla ráðherrans verði að þola efnislega meðferð í þinginu.

 

 

Alþingi fjallar nú um fjögur frumvörp Eyglóar Harðardóttur ráðherra húsnæðismála og eru þau til meðferðar í velferðarnefnd. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins setur almennan fyrirvara við tvö þeirra, annars vegar frumvarp um húsaleigubætur og hins vegar um almennar íbúðir. Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í velferðarnefnd sagði í tíufréttum Sjónvarps í gær að munur væri á stefnu stjórnarflokkanna hvað húsnæðismál varðar.

„Stefna Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum er séreignarstefna og við viljum frekar auðvelda fólki með einum eða öðrum hætti að eignast heldur en að leigja. Og þar liggur kannski ákveðinn munur á skoðunum framsóknarmanna annars vegar og sjálfstæðismanna hins vegar og þetta var alveg ljóst af hálfu og ég held að það hafi líka verið ljóst af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni að með þessum hætti yrðu frumvörpin skoðuð“ segir Ragnheiður.

Hún segir að í upphafi þegar rætt var um að fara í húsnæðisbætur hafi þær átt að vera á pari við vaxtabætur og setja átti báða bótaflokka í eitt kerfi. Ekki sé gert ráð fyrir því í frumvörpunum og sér þyki það miður.

„Í mínum huga hefði það ekki átt að koma neinum á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn og þingflokkur sjálfstæðismanna væri ekki 100% sáttur við þessi tvö frumvörp eins og þau liggja fyrir.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í Kastljósi í gærkvöld að húsnæðisfrumvörpin væru liður í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarsamninga. Hann hafi samþykkt að þau yrðu lögð fram eins og þau líta út, en þau þurfi að fá efnislega meðferð og þeir sem gerðu kröfu um að frumvörpin kæmu fram eigi eftir að senda inn umsagnir. Sjálfur segist hann ekki styðja öll mál fyrirvaralaust að öllu leyti.

„Stefnumörkunin sem felst í málunum er það sem skiptir máli, það er að segja við ætlum að fara að styðja betur við félagslega íbúðakerfið. Við ætlum að gera breytingar á bótakerfunum og svo framvegis og þá stefnumörkun styð ég fyllilega. Þetta er útfærsla ráðherrans, hún verður að þola sína meðferð í þinginu og við munum leiða þetta fram til niðurstöðu“ segir Bjarni Benediktsson.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV