Fyrirtæki Baltasars áberandi í Cannes

Mynd með færslu
 Mynd:

Fyrirtæki Baltasars áberandi í Cannes

21.09.2013 - 09:53
RVK Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, ætlar að kynna fyrir fjárfestum nokkur ný og stór sjónvarpsverkefni á kaupráðstefnunni Mipcom í Cannes í næsta mánuði. RVK Studios er þegar orðið umfangsmikið í sjónvarpsframleiðslu hér á landi.

Þetta kemur fram á vef Variety.  Þar er fjallað um áhuga Baltasars á sjónvarpsframleiðslu og haft eftir honum að bandaríski markaðurinn sé mjög móttækilegur fyrir gæðaefni.  Baltasar leikstýrði nýverið prufuþætti fyrir sjónvarpsþáttaröðina The Missionary en bandaríski sjónvarpsrisinn HBO ákvað að veðja ekki á hana. Mark Wahlberg var einn af framleiðendum þáttaraðarinnar. 

Meðal hugmynda sem fyrirtæki Baltasars ætlar að kynna fyrir áhugasömum fjárfestum í Cannes er þáttaröðin „Vatnajökull“.  Eins og nafnið gefur til kynna gerist hún á Vatnajökli og segir frá björgunarsveitarmönnum sem ramba á dularfullt fyrirbæri á jöklinum þegar þeir eru sendir þangað til að finna týnda vísindamenn.

Þá verður spennuþáttaröðin „First Degree“ einnig kynnt á Mipcom-ráðstefnunni - hún á að gerast í úthverfi - og svo Trapped, spennutryllir í litlu afskekktu þorpi.

RVK Studios er þegar farið að gera sig gildandi í sjónvarpsframleiðslu. Fyrirtækið framleiðir meðal annars þáttaröðina Hulla, sem sýnd er á RÚV, og Iceland got Talent, hæfileikakeppni sem sýnd verður á Stöð 2. Þegar hefur verið greint frá því að fyrirtækið sé að þróa sjónvarpsþáttaröð eftir íslenska tölvuleiknum EVE Online.

Í frétt Variety er enn fremur sagt frá því að tæknibrelludeild RVK Studios, RVX, sé að vinna með Ryan Gosling að nýjustu kvikmynd hans, How to Catch a Monster. Valdís Óskarsdóttir klippir þá mynd.

Baltasar hefur lýst því yfir að hann vilji nota velgengni sína í Bandaríkjunum til að styrkja stoðir íslenskrar kvikmyndagerðar. Ef marka má frétt Variety ætlar Baltasar að standa við þau orð, RVK Studios er um þessar mundir að þróa spennumyndina „Mules“ eftir Börk Sigþórsson og hryllingsmyndina Rural.

Í frétt Variety kemur svo fram að Baltasar sé um þessar mundir í Nepal. Þar undirbýr hann nú tökur fyrir næstu kvikmynd sína Everest sem Josh Brolin og Jake Gyllenhaal eiga að leika í.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

HBO hafnar þætti Baltasars

Menningarefni

Mynd Baltasars tekjuhæst í Bandaríkjunum

Menningarefni

Josh Brolin og Gyllenhaal í mynd Baltasars

Mannlíf

Kvikmyndaver áhugasöm um mynd Baltasars