Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fyrirlitning felist í skrifum Davíðs

27.04.2014 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, telur að fyrirlitning felist í skrifum Davíðs Oddssonar um evrópusinna í flokknum. Hún gefi ekkert fyrir þá skoðun að Evrópusinnar séu óæskilegir í flokknum.

Í þættinum Sunnudagsmorgni í morgun gagnrýndi Ragnheiður Ríkharðsdóttir Sjálfstæðisflokkinn harðlega fyrir einstrengingslega stefnu í Evrópumálum.

„Þetta er mjög algengt í Staksteinum Morgunblaðsins og leiðara Morgunblaðsins og Reykjavíkurbréfinu, um það að fólk sem hefur þá skoðun sem ég hef sé óæskilegt í Sjálfstæðisflokknum. Veistu, ég gef ekkert fyrir það, þó að þar sé fyrrverandi formaður flokksins að skrifa, oftast nær, þá finnst  mér það vera svo mikil fyrirlitning á skoðunum annarra, að ég get ekki samsamað mig með slíku fólki.“

Ragnheiður segist þó ekki ætla að ganga í nýjan evrópusinnaðan hægriflokk, verði hann stofnaður. Í Sjálfstæðisflokknum séu ákveðin grunngildi sem hún vilji standa fyrir.

Fréttastofa leitaði í dag viðbragða forystu Sjálfstæðisflokksins við ummælum Ragnheiðar. Hvorki náðist í formann né varaformann flokksins.