Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrirframgerð ákvarðanataka væri framfaraskref

18.06.2018 - 17:27
Fiona Morrissey, sérfræðingur á sviði fyrirframgerðrar ákvarðanatöku, og Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Fiona Morrissey, sérfræðingur á sviði fyrirframgerðrar ákvarðanatöku, og Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Mynd: Elfa Björk Ellertsdóttir
Geðhjálp, í samstarfi við Landspítalann og Reykjavíkurborg, hélt í síðustu viku námskeið í mannréttindamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu að fyrirmynd Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. Meðal leiðbeinanda var Fiona Morrissey, leiðandi sérfræðingur á sviði fyrirframgerðrar ákvarðanatöku í geðheilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, er námskeiðahaldinu ætlað að stuðla að auknu sjálfstæði notenda geðheilbrigðisþjónustu og draga úr kerfisbundnum þvingunum og fordómum. Þá sé lögfesting fyrirframgerðrar ákvarðanatöku mikilvægt skref í átt að því markmiði. 

Fyrirframgerð ákvarðanataka „er ákveðin nýjung sem hefur verið tekin upp í bæði í mörgum fylkjum Bandaríkjanna og í Evrópu, sem gengur út á það að fólk sem hefur reynslu af því að ákvarðanataka hefur verið tekin af því, eða á það á hættu, að slíkt gerist, fær tækifæri til að setja niður á blað, sem hefur lagalegt gildi, hvernig það vill að meðferðinni verði hagað. Þar á ég t.d. við hver tekur ákvarðanir fyrir viðkomandi ef viðkomandi missir tökin á eigin lífi, hvernig meðferðinni er hagað, og jafnvel bara hver hugsar um fjármálin, hver hugsar um börnin,“ segir Anna Gunnhildur. 

Talskona bættra mannréttinda í geðheilbrigðisþjónustu

Fiona Morrissey, lykilfyrirlesari námskeiðsins, hefur unnið ásamt hópi sérfræðinga að þróun námsefnis fyrir WHO. Hún er lögfræðingur að mennt og hefur sérhæft sig í réttindalöggjöf geðfatlaðra. Eitt af þeim verkfærum sem hún telur hafa gefið hvað besta reynslu er einmitt fyrirframgerð ákvarðanataka, ekki einungis hvað varðar einstaklingsrétt fólks með geðsjúkdóma, heldur einnig sem hluti eiginlegrar meðferðar. 

„Þetta er eitthvað sem fólk gerir með sínum nánustu eða fagfólki eða öðrum notendum og getur líka verið í rauninni liður í meðferðinni sjálfri og hjálpað fólki að gera sér grein fyrir því hvernig það vill haga hlutunum og hvað það er sem að skiptir máli,“ útskýrir Anna Gunnhildur. 

Lögfesting fyrirframgerðrar ákvarðanatöku á borði ráðherra

Ísland er eitt fyrsta landið til að halda slík námskeið og segir Anna Gunnhildur að fulltrúar WHO bíði spenntir eftir að sjá hvaða áhrif námsefnið hefur á lagaumhverfið hérlendis. Málefnið sé komið inn á borð heilbrigðisráðherra sem hafi tekið vel í hugmyndina. Stjórn Geðhjálpar telji það „gríðarlega mikla framför og til þess fallna að minnka þvingun í geðheilbrigðiskerfinu.“ Slík löggjöf myndi ekki einungis nýtast fólki með geðræna sjúkdóma heldur líka öðrum þeim sem sjá fram á að missa getu til sjálfsákvarðanatöku, til að mynda fólki með Alzheimer. 

Námskeiðin voru ætluð bæði notendum og heilbrigðisstarfsfólki og rík áhersla var lögð á nemendaþátttöku. Mismunandi hópar gátu því deilt ólíkum sjónarmiðum án fordóma. Dagskrá námskeiðsins fékk góðar undirtektir, en auk Morrissey fluttu þrír notendur, Héðinn Unnsteinsson, Ágúst Kristján Steinarrsson og Gunnhildur Una Jónsdóttir, erindi. Að lokum segir Anna Gunnhildur að skipuleggjendur séu „raunverulega gríðarlega stolt yfir því að hafa haldið þetta námskeið,“ og hugi á að halda hugsanlega fleiri í framtíðinni.