Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fylgstu með flöskuskeytunum

14.01.2017 - 21:30
Flöskuskeyti Ævars vísindamanns eiga að baki langa ferð fram og aftur um Atlantshafið, en nú stefna þau í átt að Skotlandi. Líkur eru á að skeytin nái landi á næstu klukkustundum, en Ævar segir að hingað til hafi þau reynst óútreiknanleg og því vill hann fara varlega í yfirlýsingarnar.

 Skeytin eru búin GPS-sendum og því er hægt að fylgjast með ferðum þeirra um hafið. Á kortinu hér að neðan má fylgjast með í rauntíma og sjá skeytin daðra við strendur Skotlands.

Ævar segir sjálfur að pælingin með flöskuskeytunum hafi verið tvíþætt. „Annars vegar var pælingin að búa til flöskuskeyti sem hægt væri að fylgjast með og hins vegar líka að sýna það og sanna, að ef maður hendir einhverju í hafið, til dæmis eins og rusli. Að það hverfur ekkert. Það fer í ferðalag og þetta minnir okkur líkar svolítið á að við þurfum að hugsa um hvar við látum ruslið okkar frá okkur og hvernig við göngum frá því,“ segir hann.

Flöskuskeytin hafa hringsólað mjög. „Þau byrjuðu á því að stefna í áttina til Grænlands, það var búið að spá fyrir og reikna aðeins út að þau gætu hugsanlega stefnt í áttina til Noregs. Þau ákváðu að fara þvert á allar spár og fóru akkúrat í hina áttina. Fóru til Grænlands, fóru svo góðan hring og aftur til Íslands, og við héldum, vonum ekki en kannski yrði þetta bara hringavitleysa fram og til baka, sem betur fer var það ekki. Svo í sumar þá stefndu bæði skeytin í áttina að Nýfundnalandi, svo fóru þau aðeins meðfram því og svo stefndu þau núna nýlega í áttina að Skotlandi, og annað þeirra er við það að koma í land þar. Það þýðir samt ekki að það muni koma í land þar. Þessi skeyti, það er mjög gaman að fylgjast með þeim vegna þess að þau fara eiginlega aldrei þangað sem maður býst við, þannig það stefnir allt í að þau, allavega annað þeirra, hugsanlega annað, á Skotlandi. Það þarf samt ekkert að vera, þannig að maður fylgist spenntur með,“ segir Ævar.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur, fjallaði um ferðalagið í kvöldfréttum RÚV, eins og sjá má í spilaranum hér að ofan. Hún sagði meðal annars að skeytin stýrist fremur af vindum en hafstraumum.

Ný þáttaröð með Ævari vísindamanni hefst 25. janúar á RÚV.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV