Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fylgni á milli hæðar og krabbameins

24.10.2018 - 05:10
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Hávaxið fólk hefur fleiri frumur í líkamanum, sem velur því að meiri líkur eru á hættulegum stökkbreytingum á frumum í líkömum þeirra. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn, þar sem stuðst er við fyrri rannsóknir sem sýna svipaða niðurstöðu.

Samkvæmt rannsókninni aukast líkurnar á krabbameini um um það bil tíu prósent fyrir hverja tíu sentímetra sem einstaklingur mælist yfir meðalhæð. Svipuð fylgni er sögð vera hjá hundum, þar sem stærri tegundir eru í meiri hættu á að fá krabbamein. Fyrri skýringar á aukningunni hafa verið ýmsar. Sum vaxtarhormón gætu til dæmis bæði haft áhrif á hæð og æxli, eða að umhverfisáhrif á borð við næringu í æsku eða veikindi gætu verið áhrifaþættir.

Guardian hefur eftir Leonard Nunney, líffræðiprófessor við University of California Riverside, að ein helsta tilgátan hafi verið sú að eitthvað sem gerist snemma á lífsleiðinni geti gert frumur næmari fyrir krabbamein, og einnig orðið til þess að fólk verður hávaxið. Nú segir Nunney að miðað við nýju rannsóknina gætu hávaxnir einfaldlega verið líklegri til að fá krabbamein vegna þess að þeir hafa fleiri frumur.

Nunney bar saman niðurstöður eldri rannsókna til þess að finna út hvort líkurnar á krabbameini í körlum og konum aukist út frá hæð þeirra. Samkvæmt niðurstöðum hans eru um 13% auknar líkur á því að konur fái krabbamein miðað við hverja tíu sentímetra ofan meðalhæðar, og um 11% hjá körlum. Alls var hægt að finna fylgni á milli aukinnar hæðar og aukinnar tíðni 18 af 23 krabbameinum sem athuguð voru.

Dorothy Bennett, yfirmaður rannsóknarstofnunar sameinda- og klínískra vísinda við St. George's University í Lundúnum, segir rannsóknina mikilvæga. Hún bendir þó á að Nunney hrapi oft að ályktunum í útreikningum sínum. Georgina Hill við Krabbameinsrannsóknarstofun Bretlands segir í viðtali við Guardian að hávaxið fólk eigi ekki að hafa áhyggjur þrátt fyrir rannsóknina. Fjöldi rannsókna hafi hingað til sýnt að hávaxnir séu líklegri til að fá krabbamein, en aukningin sé lítil og margt sé hægt að gera til þess að minnka líkurnar á krabbameini.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV