Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fylgjast grannt með íslenskum eldfjöllum

27.08.2013 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Hátt í hundrað mælar af ýmsu tagi eru notaðir til að fylgjast með eldfjöllum á Íslandi og var sumum þeirra komið fyrir í sumar. Mælanetið er hluti af risavöxnu rannsóknarverkefni á íslenskum eldfjöllum.

Markmiðið með verkefninu er að vakta íslensk eldfjöll og þróa og samhæfa vöktunarkerfi fyrir framtíðina og fékk það milljarð í styrk frá frá Evrópusambandinu. Mælitækin eru af ýmsu tagi og var sumum þeirra komið fyrir í sumar. Þau dreifast um allar helstu eldstöðvar á Íslandi og er netið þéttast við virkustu eldfjöllin. Nefna má gps-tæki, jarðskjálftamæla, tæki sem mæla þenslu fjalla, radar, gasmæla, rafsviðsmæla og fleira. Mælar sem nema hljóðbylgjur eru nýir hér á landi. Þeim var komið fyrir í Þjórsárdalsskógi í sumar.  

Gosið í Eyjafjallajökli sýndi fram á þörfina fyrir betri viðbragðsáætlanir og núna er landið er orðið einhvers konar tilraunastaður í heiminum. Veðurstofa Íslands er ákveðinn miðpunktur því hingað streyma upplýsingar frá öllum mælunum. Segja má að hér sé miðstöð gagnastreymisins.

Benedikt G. Ófeigsson sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að verið sé að samtúlka gögnin: „Stóra atriðið í þessu verkefni er að taka allar þessar upplýsingar frá mismunandi mælitækjum og setja þau í samhengi skoða þau í samhengi öll þannig að við séum að samtúlka gögnin.“

Veðurstofan og Háskóli Íslands leiða verkefnið en það er unnið í samstarfi við tuttugu og sex aðra í tíu löndum. Ekki hafa áður verið tengdar saman upplýsingar frá svona mörgum tegundum mæla með þessum hætti.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir allt vera mælt og skoðað: „Mælum smæstu jarðskjálfta, smæstu hreyfingar, ef eldfjöll tútna út um nokkra millimetra þá ætlum við að reyna mæla það, bæði með mælinum hér á jörðu niðri og líka með gervitunglum, tengja þetta allt saman í líkan yfir það hvernig kvika ferðast og hvernig eldfjöllin hegða sér.“

Vonast er til að hægt verði að segja betur til um þegar eldsumbrot hefjast, hvernig eldgosin þróast, hvað gosmekkir verða stórir, hvernig aska dreifist, og fleira slíkt. Verkefnið hefur vakið talsverða athygli erlendis bæði hjá fjölmiðlum og eldfjallafræðingum víða um heim. 

„Hugmyndin er ef vel tekst til þá ætla menn að horfa til þessa verkefnis okkar hérna, horfa til hvernig okkur gengur hérna á Íslandi og heimfæra þá okkar aðferðir yfir á önnur svæði,“ segir Freysteinn.