Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fylgishrun Verkamannaflokksins í Skotlandi

05.11.2014 - 18:45
Supporters of the Yes campaign in the Scottish independence referendum wave Scottish Saltire flags as people gather together after the polls closed, in George Square, Glasgow, Scotland, late Thursday, Sept. 18, 2014.  From the capital of Edinburgh to the
 Mynd:
Mynd:  / 
Atkvæðagreiðsla Skota um sjálfstæði heldur áfram að draga dilk á eftir sér, bæði fyrir fylgi breska Verkamannaflokksins í Skotlandi og hugsanlega fyrir úrslit bresku þingkosninganna í vor.

Samkvæmt skoðanakönnunum stefnir í fylgishrun Verkamannaflokksins í Skotlandi. Johann Lamont leiðtogi hans kvartar sárlega yfir afskiptum miðstjórnar flokksins í London og sagði af sér nýlega ásamt varaformanninum. Miðstjórnin hefur tilnefnt formannsefni en öflug verkalýðsfélög hafa fundið annað formannsefni. Skotland hefur verið lykilvígi Verkamannaflokksins og fylgishrun þar gæti haft afdrifaríkar afleiðingar í þingkosningunum næsta vor.

Alls eru 650 sæti á breska þinginu, þar af eru 59 úr skoskum kjördæmum. Verkamannaflokkurinn hefur alls 257 þingmenn, þar af 41 þingmann frá Skotlandi. Samkvæmt nýjum skoðanakönnunum gæti þessi skoski þinghópur flokksins skroppið niður í tíu eða jafnvel fjóra. Skoski þjóðernisflokkurinn hefur nú sex þingmenn á breska þinginu en gæti náð 47 til 54 af 59 skoskum þingsætunum þar.

Ef úrslit kosninganna yrðu eitthvað í líkingu við þessar nýju kannanir hefði það ekki aðeins afdrifarík áhrif á stöðu Verkamannaflokksins heldur einnig á kosti við stjórnarmyndun.

Verkamannaflokkurinn hefur undanfarna áratugi átt miklu fylgi að fagna í Skotlandi og fylgið þar skipt flokkinn verulegu máli á breska þinginu. Undanfarin misseri hefur flokkurinn haft nokkuð tryggt forskot á Íhaldsflokkinn og ætti því samkvæmt því þokkalega möguleika á að mynda meirihlutastjórn eftir þingkosningarnar í vor. Hrynji fylgi flokksins í Skotlandi þá eru mun minni möguleikar á meirihlutastjórn Verkamannaflokksins.
Þessi skoska staða er ljóslega bergmál af skoska sjálfstæðismálinu. Forysta Verkamannaflokksins lagðist gegn sjálfstæði Skota í þjóðaratkvæðagreiðslunni í september en margir kjósendur flokksins voru hins vegar á sjálfstæðislínunni. Þetta virðist hafa gert kjósendur Verkamannaflokksins afhuga flokknum og leitt þá til stuðnings við Skoska þjóðarflokkinn.

En staða Verkamannaflokksins er líka angi af því að leiðtoga flokksins tekst ekki sérlega vel að ná til kjósenda. Ed Miliband á ekki miklum persónulegum vinsældum að fagna. Margir flokksmenn kvíða því að þegar nær dregur kosningum og meira sést til leiðtogans muni það fæla kjósendur frá. Hingað til hefur þó enginn treyst sér til að skora formanninn á hólm og fáir reikna með að svo fari.

En hverjar eru þá horfurnar ef Verkamannaflokkurinn nær ekki meirihluta? Gengi Íhaldsflokksins virðist tæplega nóg til að skila flokknum meirihlutastjórn. Núna leiðir Íhaldsflokkurinn samsteypustjórn með frjálslyndum demókrötum. Gengi síðarnefnda flokksins hefur hrunið úr rúmum 20 prósentum í um átta prósent, meðal annars af því hann er búinn að missa styrka stöðu sína í Skotlandi þar sem hann hefur nú ellefu þingsæti af þessum 59.

Fram að þessu hefur það verið möguleiki að nái Verkamannaflokkurinn ekki meirihluta en yrði þó stærsti flokkurinn væri samsteypustjórn með frjálslyndum demókrötum í augsýn. En með aukinni velgengni Skoska þjóðarflokksins gæti sá flokkur komist í aðstöðuna sem frjálslyndir höfðu áður, það er að eiga völina á með hverjum hann fer í stjórn.

Skoski þjóðarflokkurinn notar öll tækifæri til að berja á Verkamannaflokknum og rifja upp sjálfstæðismálið. Í viðtali um helgina sagði Alex Salmond fráfarandi formaður þjóðarflokksins að Verkamannaflokksmenn sem stóðu þétt við hlið Íhaldsflokksins í sjálfstæðismálinu ættu eftir að gjalda þess grimmilega.

Nú stefnir svo í átök um forystu Verkamannaflokksins í Skotlandi. Johan Lamont og varaformaðurinn sögðu af sér. Lamont kvartaði hástöfum yfir að miðstjórnin flokksins í London hefði farið með skoska flokkinn eins og óæðra útibú.

Flokksforystan í London hefur nú valið sinn frambjóðanda, Jim Murphy, skoskan þingmann flokksins á breska þinginu. Á móti hefur Unison, stærsta breska verkalýðsfélagið, teflt fram Neil Findley þingmanni Verkamannaflokksins á skoska þinginu. Murphy er talinn á hægri væng flokksins, Findley á þeim vinstri. Það er athyglisvert að verkalýðshreyfingin býður flokksforystunni birginn með þessum hætti, ekki síst þar sem Ed Miliband varð flokksleiðtogi með stuðningi verkalýðshreyfingarinnar.

Það er víðar sótt að gamla tveggjaflokkakerfinu. Ukip, ESB-andsnúni hægriflokkurinn hefur notið uppsveiflu undanfarið og náði fyrsta þingmanninum í aukakosningum nýlega þegar íhaldsþingmaður gekk til liðs við flokkinn. Græningjar fengu einn þingmann í síðustu kosningum, gætu hugsanlega bætt við sig þingmönnum í vor, líklega mest á kostnað Verkamannaflokksins.

Þær horfur að Skoski þjóðarflokkurinn gæti haft áhrif á breska stjórnarmyndun eru svo róttækar og svo mikil frávik því sem þekkst hefur að menn vilja nú ekki alveg trúa því fyrr en þeir taka á því. En samanlagt eru þessar hræringar vísbending um um að bresku þingkosningarnar í vor gætu orðið sögulegar fyrir margra hluta sakir.