Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fylgi VG ekki verið meira frá 2010

01.02.2017 - 18:28
Vinstri græn hafa aukið fylgi sitt frá áramótum og hafa ekki mælst stærri síðan í maí 2010. Fylgi Viðreisnar hefur dalað, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Næstum 44 prósent segjast styðja ríkisstjórnina.

Nokkrar breytingar eru á fylgi flokka milli mánaða. Vinstri græn bæta við sig um þremur prósentum og mælast með næstum 23 prósenta fylgi. VG hefur ekki mælst stærri frá því í maí 2010. Fylgi við Viðreisn hefur hins vegar dregist saman um tvö prósentustig, og mælist flokkurinn nú með rúmlega fimm prósent. Ekki er tölfræðilega marktæk breyting á fylgi annarra flokka milli mánaða.

Sjálfstæðisflokkur mælist stærstur, með 28 prósent, Píratar með þrettán prósent, Framsóknarflokkur með ellefu, og Samfylking og Björt framtíð mælast jafnstór, með sjö prósenta fylgi. Rúm þrjú prósent myndu kjósa Flokk fólksins ef gengið yrði til kosninga nú, og rúm tvö prósent nefna aðra flokka. Næstum 44 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust styðja ríkisstjórnina.

Liðlega níu prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og tæplega átta prósent svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Könnunin var gerð 5.-29. janúar, heildarúrtakið var 4.288 manns og þátttökuhlutfallið tæp 57 prósent.
 

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV