Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fylgi Svíþjóðardemókrata minnkar

Grafísk mynd af fylgi stjórnmálaflokka í Svíþjóð 22. ágúst 2018, rúmum tveimur vikum fyrir kosningar.
 Mynd: SVT grafik - SVT
Ný könnun um fylgi stjórnmálaflokka í Svíþjóð bendir til þess að Svíþjóðardemókratar hafi tapað fylgi meðal kjósenda. Þingkosningar verða í Svíþjóð 9. september. Í undanförnum könnunum hafa Svíþjóðardemókratarnir mælst næststærsti flokkur landsins en í könnun sem gerð var fyrir sænska ríkissjónvarpið og birt í dag hafa þeir tapað fylgi, og Íhaldsflokkurinn Moderaterna er kominn fram úr þeim.

Lítill munur

Í könnun SVT munar afar litlu á Svíþjóðardemókrötum og Moderaterna. Þeir síðarnefndu njóta stuðnings 19,3 prósenta, en Svíþjóðardemókratar 19,2. Einn leiðtoga Svíþjóðardemókrata, Rikard Jamshof, sem er í framboði í Stokkhólmi, segir útkomuna staðfesta mikilvægi þess að halda kosningabaráttu áfram fram á kjördag. 

Litlar breytingar á fylgi annarra flokka

Breytingar á fylgi annarra flokka eru ekki miklar frá síðustu könnunum, Jafnaðarmenn undir forystu Stefans Löfvens, forsætisráðherra, njóta fylgis fjórðungs kjósenda. Það er með allra minnsta fylgi Jafnaðarmanna svo skömmu fyrir kosningar. Samanlagt njóta vinstriflokkar fylgis 40 prósenta kjósenda og Alliansen, bandalag fjögurra mið- og hægriflokka 38 prósenta. Stjórnmálarýnendur í Svíþjóð telja því að stjórnarmyndun geti orðið erfið og tímafrek.

Ekkert höfuðmálefni í kosningabaráttunni

Fréttaskýrandi SVT, Mats Knutson, segir að ekkert einstakt mál hafi borið höfuð og herðar yfir önnur í kosningabaráttunni. Málefni flóttamanna og dóms- og lögreglumál hafi verið áberandi í umræðunni í vor en umhverfis-, velferðar- og skattamál hafi einnig verið mikið rædd. Knutson segir að enginn búist við því að Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, verði forsætisráðherra. Skýring á minnkandi fylgi flokks hans kunni að vera að kjósendur vilji hafa bein áhrif á hvor verði forsætisráðherra, Stefan Löfven eða Ulf Kristerson, leiðtogi Moderaterna. 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV