Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fylgi stærstu flokkanna í borginni óbreytt

07.04.2018 - 18:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins í borginni mælist svipað og það var í síðustu kosningum, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Píratar og Vinstri græn bæta við sig fylgi. Framsóknarflokkurinn, sem fékk tvo menn kjörna síðast, næði ekki inn manni.

Fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík stendur nánast í stað, ef miðað er við síðustu borgarstjórnarkosningar. Samfylkingin mælist með 31,5% og fengi átta menn kjörna. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 26,3% fylgi og fengi sjö menn kjörna. Píratar næstum tvöfalda fylgið frá síðustu kosningum, og mælast nú með 11%. Þeir fengju því þrjá menn kjörna ef kosið væri nú. Vinstri græn bæta einnig við sig fylgi, og mælast nú með 10,5% og tvo menn kjörna. Næstum 8% myndu kjósa Viðreisn, liðlega 6% Miðflokkinn og rúmlega 3% Flokk fólksins en þessir flokkar voru ekki í framboði í síðustu kosningum. Viðreisn fengi tvo menn kjörna og Miðflokkurinn einn, samkvæmt könnuninni, en Flokkur fólksins næði ekki inn manni. Liðlega 3% myndu kjósa Framsóknarflokkinn, sem er hátt í átta prósentustigum minna en fylgi Framsóknar og flugvallarvina í síðustu kosningum. Flokkurinn næði því ekki inn manni.

Um hálft prósent segist myndu kjósa aðra flokka, þar af 0,4% Sósíalistaflokkinn og 0,1% Höfuðborgarlistann. 

Björt framtíð býður ekki fram í borginni, en flokkurinn fékk 15,6% atkvæða í síðustu kosningum.

Könnun Gallups var gerð dagana áttunda mars til fjórða apríl. Könnunin var netkönnun meðal Reykvíkinga, 18 ára og eldri. Heildarúrtak var 2.127 manns og svarhlutfall 54,5%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 1,1 til 2,9%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Spurt var: 
Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?
En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?
Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?

 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV