Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fylgi Sjálfstæðisflokks jókst í ágúst

01.09.2014 - 19:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Fylgi Sjálfstæðisflokksins jókst lítillega í ágúst, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Fylgi Framsóknarflokksins er orðið minna en helmingur fylgis hans í Alþingiskosningunum fyrir hálfu öðru ári.

Litlar breytingar eru á fylgi flokkanna í könnun Gallups. 28 prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ef gengið yrði til Alþingiskosninga í dag.

Fylgið eykst um hálft prósent frá síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn mælist með tæplega 12 prósenta fylgi en mældist með 13 prósent í síðustu könnun. Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað en tæplega 42 prósent þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana. Fylgi Samfylkingarinnar mælist rúm 19 prósent og hefur ekki verið meira frá síðustu Alþingiskosningum.

Fylgi Bjartrar framtíðar mælist tæplega 15 prósent og fylgi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs dalar lítillega og mælist rúmlega 12 prósent. Tæplega átta prósent segjast myndu kjósa kjósa Pírata og tæplega sex prósent myndu kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi.

Tæplega 11 prósent myndu skila auðu eða ekki kjósa og rúmlega 10 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp. Niðurstöðurnar eru byggðar á netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 29. júlí til 28. ágúst. 

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 29. júlí til 28. ágúst. Úrtakið var 5.688 manns og var þátttökuhlutfall 57,7 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,9 til 1,7 prósent. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.