Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fylgi Danska þjóðarflokksins nær helmingast

15.05.2019 - 06:15
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Danski þjóðarflokkurinn mun bíða afhroð í þingkosningunum 5. júní verði úrslitin eitthvað í námunda við niðurstöðu nýjustu skoðanakönnunarinnar sem gerð var fyrir fréttastofu danska ríkisútvarpsins, DR. Samkvæmt henni minnkar fylgi flokksins um nær helming; fer úr 21,1 prósenti í síðustu kosningum niður í 11,6 prósent, og þingmönnum fækkar úr 37 í 20. Vinstri blokkin bætir við sig fylgi.

Kannanir hafa sýnt minnkandi fylgi Danska þjóðarflokksins um nokkuð skeið, samkvæmt frétt DR. Í fyrstu könnun ársins, sem gerð var í janúar, sögðust 17,4 prósent þeirra sem afstöðu tóku ætla að kjósa flokkinn. 7. maí, þegar formlega var boðað til kosninganna í júní, sögðust 13,9 prósent aðspurðra ætla að merkja við Danska þjóðarflokkinn, og nú hefur fylgið enn skroppið saman um ríflega tvö prósentustig.

Formaðurinn brattur

Þetta er næst-minnsta fylgi sem mælst hefur við flokkinn í þau 11 ár sem fyrirtækið Epinion hefur séð um skoðanakannanir fyrir DR, en það mældist örlitlu minna í desember 2011.

Kristian Thulesen Dahl, formaður flokksins, segist þó hafa trú á að flokkurinn eigi eftir að ná vopnum sínum á ný og segist finna meðbyr hvar sem hann kemur.

Vinstri blokkin og öfgahægrið sækja á

Samkvæmt þessari nýjustu könnun eykst fylgi stjórnarandstöðuflokkanna í vinstriblokkinni töluvert. Verði niðurstaða kosninganna eins og könnunin sýnir fá Jafnaðarmenn, Róttæki vinstriflokkurinn, Einingarlistinn og Sósíalíski þjóðarflokkurinn samtals 92 af 179 þingmönnum. 

Þá koma tveir nýir flokkar yst á hægri væng stjórnmálanna mönnum á þing, samkvæmt þessari könnun. Þetta eru Nýi borgaraflokkurinn og Stram Kurs, eða Ströng stefna, sem fá fimm fulltrúa hvor verði þetta úrslitin. Báðir reka afar þjóðernissinnaða og útlendingafjandsamlega stefnu.

Leiðtogi síðarnefnda flokksins, fasistinn Rasmus Paludan, gengur svo langt að kalla eftir útrýmingu múslima, aðgerð sem hann kallar „endanlega lausn,“ með vísan í útrýmingarherferð Nasista gegn gyðingum á síðustu öld.