Fylgi besta flokksins hrynur

02.04.2011 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Fylgi Besta flokksins hefur hrunið frá því í sveitarstjórnarkosningum. Flokkurinn nýtur nú 19 prósenta fylgis og fengi ef kosið væri nú, helmingi færri borgarfulltrúa en þá samkvæmt nýrri könnun Gallups.

Besti flokkurinn var sigurvegari kosningana og hlaut 35 prósenta fylgi. Áhuginn á flokknum hefur minnkað því samkvæmt könnuninni hefur fylgið fallið um 16 prósentustig og mælist nú 19 af hundraði. Fylgi Samfylkingarinnar eykst um tvö prósentustig frá kosningunum og er nú 21 prósent. Meirhlutinn heldur ekki velli. Fengi samtals sex fulltrúa, þrjá hvor flokkur. Samfylkingin heldur sínum mönnum en fulltrúum Besta flokksins fækkar úr sex í þrjá.


Bæði Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn sækja í sig veðrið. Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst um fimm prósentustig og mælist nú 40 af hundraði. Litlu munar að flokkurinn nái hreinum meirihluta og fengi samkvæmt könnun Gallups sjö menn í borgarstjórn. Vinstri græn fengu 7 prósent í kosningunum fyrir tíu mánuðum en fengju nú 13 prósent. Flokkurinn fengi 2 borgarfulltrúa, en hefur einn núna. Tæplega 12 af hundraði tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp. Og ríflega 12 prósent segjast myndu skila auðu eða kjósa ekki ef borgarstjórnarkosningar færu fram í dag. Könnunin, sem var netkönnun, var gerð dagana 28 febrúar til 31. mars. Í úrtakinu voru 1.800 Reykvíkingar en svarhlutfallið var rúm 60 prósent.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi