Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Furstadæmin sökuð um vélabrögð gagnvart Katar

17.07.2017 - 06:50
epa05970175 Foreign ministers pose for a group photo  ahead of the Gulf Cooperation Council (GCC) foreign ministers summit in Riyadh, Saudi Arabia, 17 May 2017. Foreign ministers from the six-nation Gulf Cooperation Council (GCC) are meeting to discuss
Utanríkisráðherrar Persaflóaríkjanna sjö að fundi loknum í Riyad þann 24. maí. Vel virtist fara á með þeim. Stundu síðar var allt komið í bál og brand. Mynd: EPA
Stjórnvöld í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum (SAF) eða aðilar á þeirra vegum stóðu að innbrotum í tölvukerfi opinberra fjölmiðla og samfélagsmiðla í Katar, í því skyni að birta þar uppskálduð ummæli, eignuð emírnum í Katar, sem þóttu líkleg til að hleypa öllu í bál og brand - sem þau gerðu. Hin uppskálduðu ummæli, meðal annars um „íslamska stórveldið" Íran og lofsyrði um Hamas voru kveikjan að þeim deilum sem nú standa milli Katara og nokkurra Arabaríkja annarra.

Bandaríska dagblaðið Washington Post hefur þetta eftir heimildamönnum innan bandarískrar leyniþjónustu. Stjórnvöld í SAF hafa þegar vísað fréttinni á bug sem uppspuna.

Samkvæmt frétt blaðsins leiddi yfirferð og greining gagna ónefndrar leyniþjónustu nýlega í ljós að þann 23. maí síðastliðinn hafi háttsettir menn í ríkisstjórn SAF rætt áætlun sína og framkvæmd hennar. Óljóst er hvort stofnanir innan stjórnkerfis SAF sáu um framkvæmdina, eða hvort keypt var þjónusta utanaðkomandi aðila.

Allt í uppnám strax eftir vel heppnaðan fund

Innbrotin í tölvukerfin og birtingin á fölsuðu færslunum átti sér stað daginn eftir, 24. maí, örskömmu eftir að löngum fundi Donalds Trumps og utanríkisráðherra sjö Persaflóaríkja um hryðjuverkavarnir lauk. Katarar voru á meðal þátttakenda á fundinum, sem haldinn var í Riyad í Sádi-Arabíu undir merkjum Samstarfsráðs Persaflóaríkja. Í fundarlok lýstu bæði Trump og ráðherrarnir ánægju sinni með árangurinn og einhugur var sagður ríkja í hópnum.

Menn voru hins vegar varla lagðir af stað heim frá fundarstaðnum þegar fréttir og færslur með ummælum emírsins í Katar voru birtar og allt fór í hund og kött. Yfirvöld í Sádi-Arabíu, SAF, Barein og Egyptalandi bönnuðu þegar í stað alla katarska fjölmiðla, slitu formlegum samskiptum við Katar og boðuðu margvíslegar refsiaðgerðir gagnvart þessu áður yfirlýsta bandalagsríki sínu.

Sendiherra SAF í Washington sendi frá sér yfirlýsingu skömmu eftir að Washington Post birti frétt sína, sagði hana ranga og vísaði því algerlega á bug að SAF hefði nokkuð með meint tölvuinnbrot að gera.