Furðuverur í Öskjuhlíð

Mynd: RÚV / RÚV

Furðuverur í Öskjuhlíð

06.09.2015 - 19:03

Höfundar

Sérkennileg hróp heyrðust í Öskjuhlíð í Reykjavík í dag og torkennilegar verur sáust þar á hlaupum. Þetta er skemmtilegt og við fáum útrás fyrir leiklistareðlið segja verurnar.

Fréttamaður og myndatökumaður RÚV gengu fram á hóp dökklæddra vera sem slógust. Þær segjast vera orkar. Einn er vígalegastur. Svört gríma hylur andlit hans, hárið er sítt og svart. Hann er í brynju og með stærðarinnar hamar eða sleggju í höndunum. 

Orkarnir eru þátttakendur í því sem kallast ensku Live Action Role Play eða LARP. „Það er hægt að túlka það þannig fyrir íslenskumælandi sem lifandi leiklist,“ segir sá vígalegi sem heitir reyndar Benedikt Aron Guðnason. „Þetta er útrás fyrir leiklistareðli mitt og þetta er ótrúlega gaman. Þetta er eitthvað sem allir gerðu þegar þeir voru litlir,“ segir Benedikt. „Í hópnum á Facebook erum við 360. Það mæta að meðaltali um 20 manns á viðburð,“ bætir hann við. Hann hefur larpað eða stundað lifandi leiklist í tvö ár og segir að hópur þeirra sem gera það hér á landi stækki ört.

Næst göngum við fram á skikkjuklædda stúlku með blóm í hári og vatnsbelg í annarri hendi. „Ég er svokallaður NPC sem þýðir non player character en það er persóna sem hjálpar sögunni áfam,“ segir mærin sem heitir í raun Auður Ósk Óskarsdóttir. Í dag er ákveðin saga í leiknum í Öskjuhíð. „Í dag þá er eins og brúin á milli andaheimsins og okkar heims er byggð. Þannig að andar koma yfir í okkar heim og ég er einn af þessum öndum. Ég er andi vatnsins,“ segir Auður. „Fyrir mig er þetta svona listræn útrás því ég elska að búa til búninga og mér finnst svona spunaleikur mjög skemmtilegur,“ segir Auður. 

Andi vatnsins fylgir okkur lengra inn í skóginn þar sem trén standa svo þétt að vart sést til himins. Ofan í dálítilli gjótu þar er knæpa. Sá sem ræður ríkjum þar er Skylock Whitefur. Hann býður upp á hressingu eða drykki. Þegar hann er spurður hvers konar drykkir þetta séu svarar hann í gátum. „Svona fullorðins drykkir,“ segir Skylock en nafn hans í þjóðskrá er Carlos Reynir Hlöðversson. 

Skylock eða Himnalæsing selur líka vopn sem blessunarlega eru ekki hættuleg svona í alvörunni. Þau eru gerð úr mjúku plasti þannig að enginn ætti að meiða sig. „Ég hef gaman að þessu,“ segir Carlos um larpið. „Þetta er eitthvað sem maður getur dundað sér við og já af hverju ekki?“