Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Furðulegt að setja kvóta á mannréttindi“

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook/NPA-miðstöðin
Stjórnvöld hyggjast innleiða Notendastýrða persónulega aðstoð í skrefum. Formaður velferðarnefndar segir að með því sé settur kvóti á mannréttindi. Stefnt er að því að lögfesta aðstoðina í ár en fyrst þarf að leysa fjölda ágreiningsmála. Hversu hátt hlutfall kostnaðar á ríkið að taka á sig? Hvað á að innleiða þjónustuna hratt? Eiga börn og fólk með þroskahömlunað geta sótt um hana eða hentar hún einungis þeim sem sjálfir geta verkstýrt aðstoðarmanneskju sinni? 

Sjálfstætt líf

Í dag fá 52 einstaklingar þessa þjónustu, flestir á höfuðborgarsvæðinu. Hún er veitt á tíu þjónustusvæðum af sextán á landinu. Þjónustan á að gera fólki með fötlun kleift að lifa sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Það ræður því hvaða þjónusta er veitt, hvenær, hvernig og hver veitir hana. 

Framlengt og framlengt

Tilraunaverkefni með Notendastýrða persónulega aðstoð hófst árið 2012 og stendur í raun enn, þrátt fyrir að því hafi átt að ljúka árið 2016. Það var framlengt til ársloka 2017 og rétt fyrir síðustu áramót samþykkti Alþingi að framlengja verkefnið til ársloka 2018 eða þar til þjónustan hefði verið lögfest, því má framlengja þá samninga sem eru í gildi og gera nýja í samræmi við heimildir í fjárlögum. Samtals nema framlög til NPA-þjónustu á þessu ári 360 milljónum. 

Viljinn mikill

Frumvarp um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, sem felur í sér lögfestingu á NPA, var í tvígang lagt fram á Alþingi í fyrra. Fyrst af Þorsteini Víglundssyni síðastliðið vor, það var ekki afgreitt fyrir kosningar, svo af Ásmundi Einari Daðasyni um miðjan desember. Skömmu fyrir kosningar í haust sendu formenn allra flokka frá sér yfirlýsingu þar sem farið var fram á að lagalegur grundvöllur þjónustunnar yrði tryggður fyrir áramót. Viljinn virðist mikill. 

Sambandið hefur ekki trú á hagræðingu

Frumvarp félagsmálaráðherra er nú komið til velferðarnefndar. Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar og þingmaður Pírata, segir brýnt að lögfesta þjónustuna á þessu ári, stefnt sé að því að afgreiða frumvarpið í vor en fyrst þarf að leysa ágreiningsmálin.  

„Það er helst kostnaðarþátttaka ríkisins, sveitarfélögin hafa áhyggjur af því að það sé ekki verið að tryggja nægilegt fjármagn í þetta. Við þurfum að finna sátt í því máli og sérstaklega að passa upp á það að ef svo er geti ríkið brugðist við með einhverjum hætti. Það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin hafi getu til að veita þessa þjónustu.“ 

Miðað er við að NPA verði innleitt í þrepum og innleiðingunni verði lokið árið 2022. Þá er gert ráð fyrir að samningarnir verði 172 talsins. Ríflega þrisvar sinnum fleiri en þeir eru nú. Þjónustan heyrir undir sveitarfélögin rétt eins og önnur þjónusta við fatlað fólk frá yfirfærslunni árið 2011. Þátttaka ríkisins í kostnaði nemur nú 25%. Árið 2017 nam kostnaður ríkisins við þjónustuna 199 milljónum en gert er ráð fyrir að árið 2022 nemi kostnaðurinn 573 milljónum. Talið er að kostnaður sveitarfélaga aukist um 1336 milljónir á sama tímabili. Ríkið telur að sveitarfélögin geti hagrætt um 15% á móti þessum útgjöldum. Samband íslenskra sveitarfélaga fellst á að stór hluti NPA-samninga verði fjármagnaður með því að færa fjármuni úr hefðbundinni þjónustu í NPA en hafnar því að það verði einhver hagræðing. Vegna þessa krefst Samband íslenskra sveitarfélaga þess að hlutdeild ríkisins hækki úr 25% í 30%. Halldóra segir að þetta verði rætt í nefndinni. 

Telur rangt að láta fólk bíða

Til stendur að fjölga samningum smám saman upp í 172. Sérfræðingur Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að þá eigi jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar að vera náð. Í frumvarpinu er kveðið á um að NPA-samningar verði einungis veittir þeim sem hafa þörf fyrir þjónustu í að minnsta kosti fjórar klukkustundir á dag. Í tilraunaverkefninu voru engar slíkar kvaðir, því er gert ráð fyrir að þeir samningar sem hljóða upp á færri þjónustutíma falli niður þegar þjónustan verður lögfest og nýir komi í staðinn. 
Halldóra er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að láta fólk bíða árum saman. 

„Ráðuneytið skipaði verkefnastjórn um þetta verkefni samstarfsverkefni um NPA, þar kemur fram í janúar á síðasta ári að þörfin var 172 samningar. Nú þarf fólk að bíða til 2022 til að fá þessa samninga og hver verður þörfin þá. Þetta á að hækka í skrefum yfir einhver ár og auðvitað er það mjög furðulegt að setja kvóta á mannréttindi. Það meikar engan sens. Þetta er eitthvað sem við munum taka fyrir í nefndinni og ég legg mikla áherslu á þetta, mér finnst að við eigum bara að opna á þetta.“ 

Hætt við að fólki sé mismunað eftir búsetu

Sumir telja þjónustuna einfaldlega ekki eiga heima hjá sveitarfélögunum og segja hætt við að fólki verði mismunað eftir búsetu. Halldóra segir þetta líka verða skoðað í nefndinni. „Sveitarfélögin hafa að sjálfsögðu misjafna getu til að halda utan um þetta og þjónusta þessa hópa.“ 

Fá allir NPA?

Sérfræðingur hjá Sambandi sveitarfélaga bendir á að forsendur að baki tölunni 172 geti breyst, til dæmis ef ákveðið verður að innleiða NPA vítt, þannig að börn fái NPA og sömuleiðis þeir sem þurfa verulega aðstoð vegna verkstjórnar. Þetta þurfi Alþingi að skera úr um. Í frumvarpi velferðarráðherra er gengið út frá því að sá sem fær þjónustuna ráði til sýn aðstoðarfólk og verkstýri því. „Ef notandinn á erfitt með að annast verkstjórnina vegna fötlunar sinnar skal hann eiga rétt á aðstoð við hana.“ Halldóra segir frumvarpið ekki taka á því hvort börn eigi rétt á NPA, það sé óljóst. Sömuleiðis er óljóst hvort allir fullorðnir með fötlun eiga þess kost að fá NPA eða hvort draga þurfi einhver mörk. Þetta þurfi nefndin að skoða.

Henti alls ekki öllum 

Það er sýn sérfræðings sambandsins að það ætti að heyra til undantekninga að veita mikið fötluðum, sem ekki geta sjálfir sinnt verkstjórn, NPA. Sambandið hefur aftur á móti ekki sett sig upp á móti því að gerðir séu NPA-samningar fyrir börn. Í umsögn Sambands sveitarfélaga við frumvarp Þorsteins Víglundssonar, fyrrum félagsmálaráðherra, frá í vor, segir að notendastýrð persónuleg aðstoð henti tiltölulega litlum hópi fatlaðs fólks, alls ekki öllum. Þetta sé einn valkostur af mörgum, takmörkuð gæði. Þá segir að þróun NPA á Norðurlöndum gefi fyllsta tilefni til að fara varlega í innleiðingunni hérlendis.

Vill læra af öðrum þjóðum

Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafa verið farnar ólíkar leiðir. Sérfræðingur sambandsins segir Svía hafa ráðist í takmarkalausa innleiðingu, allir hafi getað fengið NPA. Útgjöld þeirra hafi aukist mikið, og þeir reyni því nú að stíga skref til baka, álíti kerfið sprungið. Hagnaðardrifnum einkafyrirtækjum var falið að sinna þjónustunni, það jók á kostnaðinn. Í Svíþjóð fá 196 af hverjum hundrað þúsund íbúum NPA. Halldóra segir það hafa verið mistök af hálfu Svía að fela hagnaðardrifnum fyrirtækjum að sinna þjónustunni og telur að það megi kenna því um þennan mikla kostnaðarauka.

„Um leið og fyrirtæki er farið að græða á því að veita sem flesta samninga er hvatinn orðinn furðulegur. Ef við pössum okkur á þessu ættum við að geta passað okkur á þessari miklu kostnaðaraukningu og því að verið sé að gera óþarfa samninga."

Danir fóru að sögn sérfræðings Sambandsins  varlega í innleiðinguna, þeir gera kröfu um að þeir sem fá NPA séu færir um að verkstýra aðstoðarmönnum sínum sjálfir. Í Danmörku fá 28 af hverjum hundrað þúsund íbúum NPA. Noregur er þarna á milli. 63 af hverjum 100 þúsund íbúum fá þjónustuna. Ráðgert er að árið 2022, þegar innleiðingarferlinu lýkur, verði hér 49 af hverjum hundrað þúsund íbúum með notendastýrða persónulega aðstoð.