Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Furðulegt að ekki hafi hrunið fyrr

22.04.2011 - 20:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Hugsanlegt er að stórgrýti í gjánni sem kom í ljós í Almannagjá fyrir nokkrum vikum hafi losnað í skjálftunum 2000 og 2008. Síðan þá hafi svo smám saman skolast til minna grjót sem varð til þess að gjáin opnaðist. Þetta segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sem fór ofan í gjána, sem kom í ljós undir veginum í Almannagjá fyrir nokkrum vikum, segir að það eina sem sé undarlegt við gjána sé að vegurinn skyldi ekki hafa hrunið ofan í hana löngu fyrr. Hann segir að vera kunni að stóru jarðskjálftarnir fyrir nokkrum árum hafi losað um stórgrýti ofarlega í henni. Síðan hafi smærra grjót og ofaníburður skolast í burtu og gjáin komið í ljós.


Starfsmenn þjóðgarðsins uppgötvuðu gjána í lok mars þegar þeir potuðu ofan í sakleysislega holu efst á veginum ofan í Almannagjá. Síðan þá hefur hún verið girt af til bráðabirgða og plankar festir yfir. Á þriðjudaginn var voru plankarnir losaðir svo jarðfræðingur gæti skoðað gjána og sjónvarpsfólk fékk að fara með. Gjáin er að minnsta kosti 10 metra djúp í nyrðri hlutanum rétt við opið en ekki er hægt að sjá hvað hún nær langt niðureftir Almannagjá.