Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Furðufiskar á hafsbotni

21.08.2012 - 11:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Þyrnikórall og ýmislegt annað áhugavert sást í neðansjávarmyndatökuleiðangri á Bjarna Sæmundssyni í lok júní og greint er frá á vef stofnunarinnar. Rannsóknin fór fram í Háfadjúpi suður af landinu og var myndefni safnað af botninum á 15 stöðvum á 110-730 m dýpi.

Trjónufiskur, stuttnefur, lúða, skötuselur, stóra brosma, litla brosma, geirnyt, bláriddari, karfi og blálanga eru dæmi um fiska sem náðist að mynda.

Önnur áhugaverð dýr sem sáust voru sæfjaðrir, en víða voru miklar breiður af slíkum dýrum á leirbotni, krossfiskar af ætt Brisinga (Freyjudjásn), sæliljur, bláir svampar, nornakrabbi, ægisdrekkur, möttuldýr og margt fleira.

Rusl sást á nokkrum stöðvum, meðal annars bylgjupappi og plastpoki á um 500 m dýpi.

Svartgóma

Geirnyt voru algeng í háfdjúpinu

Glær möttuldýr við grjótið á leirbotninum. Hvítar sæfjaðrir, sæliljur og skeiðormar liggja á botninum.

Óþekkt hvít gormlaga lífvera

Bylgjupappi á 500 metra dýpi innan um bambuskóral og sæfjaðrir