Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Furðar sig á því að auka eigi álögur

30.03.2017 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjörutíu prósenta verðhækkun verður hjá sumum ferðaskrifstofa á ferðum innanlands næsta vetur. Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofu segir að styrking krónunar muni draga úr eftirspurn ferðamanna og fækka störfum í greininni. Hann furðar sig á að stjórnvöld ætli að  hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. 

 

Færa á ferðaþjónustuna úr lægra þrepi virðisaukaskatts í það hærra. Jafnframt er stefnt að því að hærra þrepið verði lækkað í 22%. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi frá þessu á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær. Úttekt stjórnvalda bendi til að kostnaður ferðamanna myndi aukast um 4-5% við þetta. „Miðað við þá gríðarlegu eftirspurn sem er eftir því að koma til Íslands þá teljum við að þetta sé réttlætanlegt. Það dragi aðeins úr komu ferðamanna en þeim mun samt sem áður halda áfram að fjölga,“ sagði forsætisráðherra í gær.

Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Kötlu DMI, hefur unnið við ferðaþjónustu í 25 ár. Honum líst ekki vel á að auka álögur á ferðaþjónustuna. „Mér líst illa á það. Og ég held að það sé sérstaklega óheppilegt núna þegar við erum að glíma við gríðarlegar verðhækkanir  út af styrkingu krónunnar sem eiga eftir að skila sér í verðhækkunum eins og við erum að sjá í þýskumælandi Evrópu. Við erum hækka Norðurljósaferðir veturinn 2017/2018 um 40%. Það mun hafa mikil áhrif á eftirspurnina og þessi breyting, ef við bætum henni ofan á, þá mun hún dýpka niðursveifluna þegar hún kemur. Það sem við gerum í dag, og staða krónunnar í dag, mun skila sér eftir 12-18 mánuði, jafnvel eftir 2 ár. Þannig að með fara núna að taka ákvörðun að hækka virðisaukaskattinn. Þá erum við að leika okkur með vöruna okkar, sem ég held að sé bara mikil áhætta á þessum tímapunkti að gera þetta,“ segir Pétur. 

Pétur segir að nú þegar hafi dregið úr eftirspurn og ljóst sé að störf við ferðaþjónustu tapist.  „Það mun verða samdráttur í íslenskri ferðaþjónustu vegna styrkingar krónunnar,“ segir Pétur. 

Samtök ferðarþjónustunnar ræða þessi mál nú á stjórnarfundi. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, er hins vegar jákvæður gagnvart áformum um að setja ferðaþjónustuna í hærra virðisaukaskattsþrepið. „Ég tel eðlilegt að ferðaþjónustan greiði til samfélagsins í takt við aðrar atvinnugreinar en í þessari umræðu má alls ekki gleyma gistináttagjaldinu sem lengi hefur verið rætt um að renni til sveitarfélaga og það þarf auðvitað að fara að klára það mál,“ segir Dagur. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV