Furðar sig á seinagangi í stjórnarskrármáli

14.10.2018 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis furðar sig á því hversu langan tíma það taki að gera breytingar á stjórnarskránni. Formenn flokkanna hafi ekki mótað ákveðnar tillögur að breytingum. Þá furðar formaðurinn sig á því að vinnan eigi að spanna tvö kjörtímabil. 

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis furðar sig á því að nefnd formanna stjórnmálaflokkanna ætli að taka sér kjörtímabil til þess að ljúka endurskoðun á stjórnarskránni. Engar áþreifanlegar tillögur að breytingum séu komnar fram.

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar ræddi stöðuna í stjórnarskrármálinu á fundi sínum í gær. Formenn stjórnmálaflokkanna skipa nefnd sem ætlað er að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis bendir á að rætt hafi verið um þörfina fyrir breytingar á stjórnarskránni frá því Ísland var fullvalda.

„Það gengur mjög hægt það er árið 2018 og við erum ennþá með þessa stjórnarskrá. En ég held að það hafi nánast linnulaust frá lýðveldisstofnun verið starfandi einhvers konar nefnd á vegum Alþingis sem átti að koma að breytingum á stjórnarskránni,“ segir Helga Vala.

Þá hafi þjóðin samþykkt tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. 

„Þannig að ég veiti eiginlega ekki eftir hverjum við erum að bíða,“ segir Helga Vala.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk verkefnisstjóra og lögfræðing sem starfað hafa með formannanefndinni á sinn fund nýverið. 

„Það er eru ákveðnir þættir sem var ákveðið að taka fyrir á þessu kjörtímabili og aðra þætti á því næsta. Ég spyr mig af hverju þarf að taka tvö kjörtímabil í þetta verk? Ég skil ekki alveg af hverju það þarf að vera þannig en það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera það þannig,“ segir Helga Vala.

Á þessum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kom fram að vinna sé eitthvað á skrið komin, er búið að negla niður einhverjar ákveðnar breytingatillögur?

„Nei, það var svona verið að fara yfir hvernig vinnan eigi að vera. Ekki búið að breyta neinu konkret. Nú er október, tvö og hálft ár til næstu kosninga, þannig að maður er svona hóflega bjartsýnn,“ segir Helga Vala.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi