Fundu yfir 50 fjöldagrafir

epa03486601 Congolese government soldiers aboard a pick up truck leave their headquarters to escort Lieutenant General Olenga Francois in the town of Minova, some 45km from the provincial capital Goma, Democratic Republic of Congo, 25 November 2012. The
Austur-Kongó, eða Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, er afar víðfeðmt og strjálbýlt á stórum svæðum. Her og lögregla geta víða lítið gert til að stemma stigu við blóðsúthellingum. Mynd: EPA
Rannsóknarnefnd á vegum Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og yfirvalda í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó fann nýverið rúmlega 50 fjöldagrafir í vesturhluta landsins. Róstusamt hefur verið á þessum slóðum um hríð og fréttir borist af blóðugum og mannskæðum átökum þjóðarbrota.

Abdoul Aziz Thioye, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofunnar, greindi frá því á laugardag að rúmlega 50 fjöldagrafir og töluvert af ómerktum einstaklingsgröfum hefði fundist í og umhverfis bæinn Yumbi í Mai-Ndombe-héraði í vesturhluta landsins.

Telja hverja gröf geyma tugi og jafnvel hundruð líka

Heildarfjöldi þeirra sem í gröfunum hvíla liggur ekki fyrir, en Thioye segir að grafirnar geymi allt frá fimm eða tíu líkum upp í fleiri tugi hver, og jafnvel einhver hundruð. AFP-fréttastofan hefur eftir Fall Sikabwe, hersöfðingja, að rannsókn sé hafin á gröfunum og þeim sem í þeim liggja. „Þeir hafa drepið hermenn og lögreglumenn og tekið vopn þeirra til að myrða með," sagði hershöfðinginn, án þess að tiltaka hverja hann ætti við.

Fyrr í þessum mánuði greindi Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, frá því, að minnst 890 hefðu verið vegin í þriggja daga blóðugum átökum tveggja þjóðarbrota í Yumbi og nærliggjandi þorpum um miðjan desember. Hátt í 500 hús voru eyðilögð og jafnvel brennd til grunna í bardögunum, þar á meðal tveir skólar, heilsugæsla, skrifstofa landskjörstjórnar og verslunarhúsnæði.

Um 16.000 manns hafa flúið frá svæðinu og yfir til nágrannaríkisins, Lýðveldisins Kongó, síðan óöldin braust út í desember.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi