Fundu helli með mannvistarleifum

Mynd með færslu
 Mynd:

Fundu helli með mannvistarleifum

05.03.2014 - 15:23
Hellir með mannvistarleifum fannst fyrir tilviljun í þjóðgarðslandinu á Snæfellsnesi í janúar. Engar heimildir voru til um notkun hellisins fyrr en fjórir menn fundu hann. Hellirinn og mannvistarleyfarnar verða rannsakaðar nánar og aldursgreindar.

„Það eru ekki margir hellar á landinu sem eru þekktir fyrir mannvistarleyfar og mjög fáir á okkar svæði. Þannig að fyrir okkur er þetta mjög merkilegt,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður. Hún fór ásamt mönnunum fjórum sem fundu hellinn og minjaverði að skoða hann og sjá hvers kyns væri. Þar var að finna eldstæði og dýrabein.

„Það hefur ekki verið búið þarna, hvorki í hellinum né í næsta nágrenni. Hann er þannig staðsettur. Sá sem hefur verið með eldinn hefur ekki verið lengi þarna, myndi ég halda,“ segir Guðbjörg. „Hellirinn verður mældur upp og sýni tekin af beinunum og þau send í aldursgreiningu. Þá vitum við hversu langt er síðan einhver hefur verið þarna og eldað sér kjöt.“

Sá sem sér um rannsóknirnar er Magnús Aðalsteinn Sigurðsson, minjavörður á Vesturlandi. Hann sendir beinin til útlanda í aldursgreiningu og rannsakar hellinn nánar í vor. Sigurður segir engar sögur fara af notkun hellisins, hans sé ekki getið í heimildum og hafi ekki verið þekktur fyrr en hann fannst í janúar.

Þór Magnússon að Gufuskálum er einn þeirra sem fundu hellinn. Hann lýsir uppgötvuninni svo í frétt sem birtist á vef Umhverfisstofnunar. „Beinin voru mjög dökk að hluta, næstum eins og brennd og talsvert morkin, okkur taldist til að þetta væru átta leggir og eitthvað af öðrum beinum en talsvert dreifð um hellinn. Síðan var farið að skoða grjóthrúguna á gólfinu en hún samanstóð af hraunhellum sem flestar hverjar virtust eiga upptök sín í lofti hellisins og höfðu hrunið á gólfið. Þeim hafði verið raðað saman til að mynda einskonar eldstæði og á milli þeirra voru öskuleifar sem mynduðu hring á stærð við meðalstóran matardisk. Ofan á öskunni var þunn hraunhella sem nánast huldi öskulagið. Nú hófust miklar bollaleggingar og margt flaug um í huga okkar um tilveru þessa. Við ákváðum að hreyfa ekki við neinu en höfðum þá tekið helluna ofan af öskuleifunum. Allt var myndað í bak og fyrir og síðan hófst nánari könnun á hellinum. Næst var farið inn í álmuna á vinstri hönd en hún virtist heldur greiðfærari þó ekki væri hægt að ganga uppréttur fyrstu metrana en heldur hækkaði til lofts er innar dróg. Þegar komið var um 20 metra sameinuðust hvelfingarnar á ný og áfram hélt hellirinn ágætlega manngengur. Skyndilega blasti við okkur ansi merkileg sjón þar sem hellirinn var rúmir 2 metrar á hæð héngu tvær rætur með nokkura sentimetra millibili frá lofti og alveg niður á gólf, en eftir rótunum rann síðan vatn í stríðum straumum. Við höfum oft séð rætur stinga sér í gegnum hellaloft á yfirborðsrásum en aldrei fyrr svo langar að þær nái niður á gólf. Frá rótunum og inn í botn hellisins voru ca. 10 metrar. Síðan fór hluti hópsins hægri rásina til baka en hún var talsvert hrunin og í henni miðri var smá útúrdúr um það bil 6-8 metrar sem voru skriðnir þar. Á þessum slóðum var einn hluti leggjanna og eitthvað af smærri beinum. Samkvæmt samanlögðum mælingum með laser reiknast hellirinn nálægt 100 metra langur, en gera þarf nákvæmari mælingar.“

[email protected]