Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Fundu fimm á lífi í rústum í dag

18.01.2010 - 07:23
Íslenska björgunarsveitin á Haítí varði gærdeginum í borginni Leogane, sem er nærri upptökum skjálftans, en sveitin fór þangað með breskum björgunarhóp. Þessar sveitir voru þær fyrstu sem fóru til Leogane sem er um fjörtíu kílómetra suðvestur af Port au Prince, nálægt upptökum skjálftans.

Dreifing matvæla, drykkjarvatns og hjálpargagna til fólks er þó ekki komin almennilega af stað. Fjöldi flugvéla hefur lent með nauðsynjar á flugvellinum í höfuðborginni en margar þeirra hafa ekki verið affermdar. Formælandi Bandaríkjahers sagði þó í gærkvöld að það stæði til bóta.

Leitað var í tveimur skólum í borginni, en enginn fannst þar á lífi. Um átta af hverjum tíu húsum í borginni eru skemmd eða hrunin.

Gísli Rafn Ólafsson, foringi sveitarinnar, segir það hafa mikil áhrif á menn að þurfa að leita í rústum skóla þar sem börn gæti verið að finna. Þó líkur séu hverfandi á því að finna fólk á lífi hafi fimm fundist á lífi í dag í húsarústum. Því sé enn hugsanlegt að fleiri finnist á lífi.

Á morgun ætlar íslenska björgunarsveitin að leita á svæði í Port-au-Prince þar sem ekki hefur verið leitað áður. 

Talið er að hundrað til tvö hundruð þúsund manns hafi beðið bana í skjálftanum, eða látist frá því hann reið yfir. Yfirvöld óttast drepsóttir og hafa lagt 70 þúsund manns í fjöldagröf.
 

Tengdar fréttir: