Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fundu 1,7 tonn af metamfetamíni

08.02.2019 - 09:25
Mynd:  / 
Samvinna bandarískra og ástralskra yfirvalda leiddi til þess að upp komst um smygl á rúmlega einu komma sjö tonnum af metamfetamíni til Ástralíu. Sendingin fannst í Kaliforníu í síðasta mánuði. Ástralska lögreglan greindi frá málinu í dag.

Að hennar sögn  hefði mátt búa til sautján milljónir skammta af efninu og selja fyrir jafnvirði 156 milljarða króna. Auk metamfetamínsins fannst nokkuð af kókaíni og heróíni. Talsmaður áströlsku ríkislögreglunnar sagði á fundi með fréttamönnum í Melbourne í dag að komið hefði verið í veg fyrir flóðbylgju af eiturlyfjum til Ástralíu. Að hans sögn hefur aldrei áður komist upp um jafn stóra sendingu af metamfetamíni til landsins. Að sama skapi hafa bandarísk tollayfirvöld aldrei fundið aðra eins sendingu. Talið er að efnin hafi upphaflega komið frá Mexíkó.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV