Funda um yfirlýsingar Gunnars Braga

16.01.2019 - 08:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ræðir skipanir sendiherra á opnum fundi í dag. Tilefnið er yfirlýsingar Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, um loforð um sendiherrastöður sem heyrast á Klausturupptökunum. Bein útsending frá fundinum hefst klukkan 10.30 á RÚV og rúv.is.

Ætlunin var að halda þennan fund fyrir jól en það tókst ekki þar sem hvorki Gunnar Bragi Sveinsson né Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmenn Miðflokksins og fyrrverandi ráðherrar, svöruðu fundarboði nefndarinnar.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa báðir staðfest komu sína á fundinn í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson eru einnig boðaðir á fundinn en hafa ekki staðfest komu sína.

Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð sátu á Klausturbarnum í lok nóvember þar sem gerð var upptaka af samtali þeirra og fjögurra annarra þingmanna. Þar má heyra Gunnar Braga segja frá loforði sem hann tók af Bjarna, formanni Sjálfstæðisflokksins, um að Gunnar Bragi fengi sjálfur sendiherrastöðu ef hann skipaði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, í stöðu sendiherra.

Geir var skipaður sendiherra Íslands í Bandaríkjunum í utanríkisráðherratíð Gunnars Braga árið 2014. Á sama tíma var Árni Þór Sigurðsson, þáverandi þingmaður Vinstri grænna, skipaður sendiherra. Gunnar Bragi heyrist stæra sig af þessari ákvörðun á upptökunum. Með þessum hætti hafi hann gagngert leitt athyglina frá skipan Geirs.

Á upptökunum heyrist Sigmundur Davíð staðfesta þessa frásögn Gunnars Braga. Eftir að upptökurnar voru gerðar opinberar hafa þeir þvertekið fyrir að sagan um loforðið væri sönn. Bjarni Benediktsson hefur jafnframt neitað því að hafa veitt slíkt loforð og Guðlaugur Þór segist ekki vita til þess að til stæði að gera Gunnar Braga að sendiherra.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi