Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Funda í dag um kjör ljósmæðra í heimaþjónustu

23.04.2018 - 13:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
95 ljósmæður sem starfa sjálfstætt við heimaþjónustu víða um land lögðu niður störf í dag. Þær ætla ekki að taka til starfa á ný fyrr en samningur við Sjúkratryggingar Íslands um greiðslur til þeirra verður undirritaður.

Ljósmæðurnar hafa starfað samningslausar sem verktakar síðan í febrúar. Í tilkynningu frá velferðarráðuneyti segir að Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, leggi nú kapp á að finna fyrirkomulagi á þjónustunni traustari umgjörð en þá sem felst í þeim rammasamningi sem starfað hefur verið eftir. Þar segir að þó að aðgerðir ljósmæðra í heimaþjónustu snerti nýbakaðar mæður óhjákvæmilega muni þær engu að síður njóta allrar þjónustu sem þörf sé á. 

Fram kom í frétt í morgun að drög að samningi hafi legið fyrir í velferðarráðuneyti síðan fyrir páska. Í tilkynningu velferðarráðuneytis segir að það sé ekki rétt, heldur hafi Sjúkratryggingar Íslands komið minnisblaði á framfæri við velferðarráðuneyti 23. mars síðastliðinn. Það innihaldi tillögur að breytingum á rammasamningi sem starfað hefur verið eftir til þessa. Þær hafi falið í sér skerðingu á heimaþjónustu sem myndu hafa áhrif á fæðingardeildir. Velferðarráðuneytið hafi leitað umsagnar Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítala. Mat fagfólk beggja sjúkrahúsa var að þær að breytingar á þjónustunni sem lagðar voru fram í minnisblaðinu séu óæskilegar og leiði til lakari þjónustu við mæður og foreldra nýbura og aukins kostnaðar. Í umsögn Landspítala segir að lengri sjúkrahúslega auki hættu á spítalasýkingum bæði er varðar móður og barn. 

Fulltrúar Velferðarráðuneytis og Sjúkratrygginga funda í dag um stöðu málsins og næstu skref.