Funda fyrir luktum dyrum í næstu viku

06.12.2018 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis með þeim Bjarna Benediktssyni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni fer fram í næstu viku. Að sögn Helgu Völu Helgadóttur, formanns nefndarinnar, verður fundurinn að öllum líkindum lokaður fjölmiðlum og almenningi. Enginn nefndarmaður hefur farið fram á annað og hún væntir þess ekki að breyting verði þar á.

Gunnar Bragi, Sigmundur, Bjarni og Guðlaugur voru kallaðir fyrir nefndina vegna ummæla um fundi vegna hugsanlegrar sendiherrastöðu fyrir Gunnar Braga. Ummælin má heyra á upptökunni umtöluðu af Klausturbar. Guðlaugur Þór hefur staðfest að hafa hitt Gunnar Braga að máli vegna áhuga þess síðarnefnda á starfi erlendis. Guðlaugur telur líklegt að Gunnari Bragi hafi haft væntingar um sendiherraðstöðu en segir að engin loforð hafi verið gefin um slíkt.

Klaustursmálið svokallaða er nú einnig til skoðunar hjá siðanefnd Alþingis. Þar verður farið yfir ummæli og háttsemi þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klausturbar en fundur um mögulega sendiherrastöðu Gunnars Braga verður ekki tekin fyrir hjá þeirri nefnd.