„Fullviss um að þetta var rétt ákvörðun“

Mynd: RÚV / RÚV
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sér ekki eftir ákvörðun flokksins að slíta stjórnarsamstarfinu. Það sé góður minnisvarði um flokkinn og kærkomin breyting í íslenskum þjóðfélagi að stjórnmálaafl hafi tekið fast á því þegar reynt var að hylma yfir kynferðisbrot og óþægilega hluti þeim tengdum.

Rætt var við þau Björtu Ólafsdóttir og Óttarr Proppé á kosningavöku Bjartrar framtíðar fyrr í kvöld. Óttarr segir sárt að flokkurinn sé að hverfa af þingi en hann hafi valdið miklum breytingum í íslenskum stjórnmálum. „Við erum mjög meðvituð um það að við gerðum mjög stóran hlut, við í raun og veru ollum mjög stórri breytingu í íslenskri pólitík með því að slíta ríkisstjórn út frá leyndarhyggju og út frá vinnubrögðum og það er stór breyting og við stöndum stolt við það en skiljum það vel að það virðist ekki vera að skila sér til okkar í fylgi,“ segir Óttarr.

Björt segir mikilvægt að læra af þessari reynslu og það geti vel verið svo að flokkurinn hafi fórnað sér fyrir málstaðinn. „Það er þá bara góður minnisvarði og góð breyting í íslensku þjóðfélagi að stjórnmálaafl, leiðandi afl í ríkisstjórn, hafi tekið fast á því þegar reynt var að hylma yfir kynferðisbrot og óþægilega hluti þeim tengdum fyrir flokka og manneskjur þar. Kynferðisafbrot hafa verið sett skör neðar og það gengur ekki lengur í íslensku samfélagi lengur, við höfum margt gott hérna en þetta er meinsemd sem þarf að laga og það verður að byrja einhvers staðar, þarna tókum við mjög stórt skref og við verðum að halda því áfram. Ef að þetta verður þannig að við höldum ekki áfram á þingi út af þessu að þá er líka eins gott að við munum það hvað gerðist og látum söguna kenna okkur eitthvað,“ segir Björt Ólafsdóttir. 

Þau segja að Björt framtíð bjóði fram í sveitarstjórnarkosningum því þar standi flokkurinn sterkur. Óttarr sér ekki eftir ákvörðun flokksins að slíta stjórnarsamstarfinu. „Þetta var hárrétt ákvörðun, það var algjörlega rétt að standa við okkar prinsipp og láta brjóta á málum sem eru prinsipp mál en ekki bara spurning um völd. Völd eru líka til að afsala sér þeim þegar að það er ekki siðferðislega rétt að standa áfram,“ segir Óttarr. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi