Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fullveldið kallaði á menningu og fágun

Mynd: RUV - samsett mynd / RUV - samsett mynd

Fullveldið kallaði á menningu og fágun

05.01.2018 - 12:46

Höfundar

Á laugardag kl. 17 hefst fyrsta þáttaröðin af fimm sem Rás 1 býður upp á árinu 2018 og fjallar um sögu Íslands á fullveldistímanum. 1. desember næstkomandi verða hundrað ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki.

Fyrsta 10 þátta röðin heitir Ágætis byrjun og þar verður glefsað í fjölbreytta list- og menningarsögu landsins á þessu tímabili. Umsjón hefur Guðni Tómasson en hér má heyra brot úr fyrsta þættinum.

Menning málefni stjórnvalda

Í hverjum þáttanna 10 í röðinni Ágætis byrjun er horft til áratugar í hundrað ára sögu fullveldisins og kannað hvernig menning og listir á Íslandi eflast og verða fjölbreyttara svið samfélagsins. Leitað er til fræðimanna og kunnáttufólks um menningarsöguna og einnig í dagblöð og safn Ríkisútvarpsins. 

Í fyrsta þætti er fjallað um tímabilið 1918-1927 en eftir að fullveldinu hafði verið náð á pólitíska sviðinu voru menningarmál eitt af þeim sviðum sem landsstjórinin gerði sig breiðari á. Áhersla var lögð á að hér byggi þjóð meðal þjóða sem biði upp á nútímalega menningu.  Árin í kringum fullveldistökuna og fyrstu ár aldarinnar voru líka ár mikilla tilrauna og nýjunga í menningarlífinu, en listin er langhlaup og oft vantaði dáldið upp á úthaldið.

Til dæmis fór hugmyndin um Þjóðleikhús að taka á sig mynd á þriðja áratug aldarinnar, en hér fyrir ofan má heyra smá brot úr fyrsta þætti þar sem fjallað er um fyrstu menntuðu leikarana og drauminn um þjóðleikhús.

Fyrsti þáttur er á laugardag 6. janúar kl. 17. Umsjón hefur Guðni Tómasson en lesari er Sigríður Halldórsdóttir.