Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fullveldi fagnað í heitum potti og með óperu

07.12.2017 - 19:57
Mynd úr safni - Mynd: RÚV / RÚV
Aldarafmæli fullveldisins verður meðal annars fagnað í heita pottinum í Sundlaug Akureyrar á næsta ári og með óperusöng í dramatískri sögu tveggja bræðra. Í dag var veittur styrkur til hundrað hátíðarverkefna.

Heitar umræður um fullveldið verða í heita pottinum í Sundlaug Akureyrar og þeim sem verður of heitt í hamsi verður umsvifalaust vísað upp úr og í kalda pottinn. Þetta er eitt af hundrað verkefnum sem fengu styrk til hátíðarhalda í tilefni hundrað ára fullveldis landsins á næsta ári.

Sundlaug Akureyrar er vettvangur verkefnisins Á kafi í fullveldi er eitt af hundrað verkefnum sem afmælisnefnd fullveldis Íslands styrkti í dag. „Þetta verður nokkurs konar málþing í sundlauginni. Það geta verið t.d. heitar umræður í heita pottinum og þar verður mönnum vísað upp úr í kalda pottinn ef það verða alltof heitar umræður,“ segir Almar Alfreðsson, verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarstofu. 

„Þessi verkefni eru mjög fjölbreytt. Það eru mörg sem eru ný og fela í sér ákveðna nýsköpun og þau eru með mjög góða landfræðilega dreifingu. Við erum með fjölbreytt verkefni af öllu landinu. Við reiknum með að það byrji í janúar og verði út desember og það er ennþá hægt að koma með verkefni á dagskrána,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri afmælisnefndar.

Þá fékk Íslenska óperan þriggja milljóna króna styrk til að setja upp óperuna Bræður, byggða á samnefndri kvikmynd Susanne Bier. „Þetta er ný íslensk ópera eftir Daníel Bjarnason sem var frumsýnd í Árósum í ágúst. Þetta verður að mestum hluta íslenskt listafólk, bæði í einsöngshlutverkum, kórnum og hljómsveitinni. En það eru þrír gestasöngvarar í stórum hlutverkum, þar af ein lítil dásamleg 12 ára stúlka,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar.

Þá fékk Sagafilm styrk til að gera tíu þátta sjónvarpsþáttaröð. Hver þáttur verður tíu mínútna langur. Þættirnir fjalla um merka atburði á fullveldisöldinni. 1918 er dálítið langt fyrir upphaf Sjónvarpsútsendinga á Íslandi, hvernig er með myndefni? „Ja, þá reynir á listrænu hliðna. Við finnum lausn á því . Danir voru aðeins á undan okkur í kvikmyndabransanum þannig að við leitum þangað,“ segir Margrét Jónasdóttir, framleiðandi hjá Sagafilm.