Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fulltrúar tryggingafélaga á leiðinni

22.07.2013 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúar tryggingafélaga og rússneskra flugmálayfirvalda eru væntanlegir til landsins í kvöld vegna brotlendingar rússneskrar farþegaþotu á Keflavíkurflugvelli í gær.

Brotlending rússneskrar farþegaþotu á Keflavíkurflugvelli í gær náðist að hluta til á eftirlitsmyndavélar. Fulltrúar tryggingafélaga og rússneskra flugmálayfirvalda eru væntanlegir til landsins í kvöld í tengslum við málið.

Rússneskri farþegaþotu hlekktist á í lendingu á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun með þeim afleiðingum að hún rann út af flugbrautinni. Fimm Rússar voru um borð, fjórir sluppu ómeiddir en einn var fluttur á sjúkrahús með brotinn ökkla. Þá er vélin mikið skemmd. Rannsókn á óhappinu hófst strax í gær og segir Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa að hún hafi gengið vel. Stór hluti gærdagsins hafi farið í að ræða við áhöfn vélarinnar. Það hafi verið tímafrekt, enda hafi þurft aðstoð túlks við þá vinnu þar sem meðlimir áhafnarinnar hafi talað afar litla ensku. Auk þess hafi fulltrúar lögreglu tekið viðtöl, en það er alltaf gert í tilvikum sem þessum til þess að kanna hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.

Vinna rannsóknarnefndarinnar snúi hins vegar að því hvað gerðist og hvers vegna, og hvernig megi bæta flugöryggi í kjölfarið. Þá segir Ragnar að tekist hafi að ná tveimur flugritum vélarinnar í gær. Annar þeirra er hljóðriti sem skráir öll samskipti í flugstjórnarklefa og við flugturn, hinn er svokallaður ferðriti sem skráir upplýsingar á borð við hæð vélarinnar, hraða og annað í þeim dúr.

Ekki er aðstaða til að lesa af flugritum hér á landi og segir Ragnar að ákveðið verði í dag hvert ritarnir verða sendir. Ragnar segir ótímabært að tala um ástæður óhappsins. Hjól vélarinnar hafi ekki verið niðri þar sem hún hafnaði, en ekki sé vitað hvers vegna. Atvikið náðist að hluta til á eftirlitsmyndavélar og verða þær myndir skoðaðar í dag.

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvenær eigi að flytja vélina af flugvellinum. Fulltrúar tryggingafélaga eru væntanlegir til landsins í dag, ásamt fulltrúum rússneskra flugmálayfirvalda. Þeir munu skoða ástand vélarinnar áður en hún verður flutt, og því ólíklegt að það verði gert fyrr en á morgun í fyrsta lagi. Á Keflavíkurflugvelli er hins vegar til búnaður til þess að lyfta vélinni þannig að ekki þurfi að draga hana.