Fulltrúar Lýsingar kallaðir á fund

Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúar fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar hafa verið boðaðir á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í fyrramálið. Fyrirtækið telur nýlegan gengislánadóm Hæstaréttar ekki eiga við um sín lánasöfn og hefur sú afstaða komið á óvart.

 

Margir bíða eflaust óþreyjufullir eftir að heyra hvaða áhrif dómur Hæstaréttar hefur á gengislán þeirra. Nokkuð hefur dregið úr óvissu því dómurinn gengur lengra en fyrri dómar þar sem nú er tekið á því hvernig eigi að endurreikna lánin. Fulltrúar banka og fjármögnunarfyrirtækja hafa á síðustu dögum fundað með efnahags- og viðskiptanefnd um þýðingu dómsins. Bankarnir hafa ýmist lýst því yfir að þeir ætli að hefja endurútreikning strax byggðan á honum eða að unnið sé að því að meta fordæmisgildi.

Lýsing hefur hins vegar gefið þau svör að dómurinn taki ekki til síns lánasafns. Efnahags- og viðskiptanefnd fékk þær skýringar að lánin sem dómurinn tæki til væru til langs tíma en að lán fyrirtækisins væru í flestum tilfellum stutt. Fréttastofa hefur ítrekað í dag haft samband við fyrirtækið og óskað eftir frekari skýringum. Við því var ekki orðið og neitaði forstjórinn bæði viðtali og samtali við fréttastofu.

Síðdegis barst þó fréttatilkynning frá Lýsingu þar sem segir að nýi dómurinn fjalli um undantekningartilvik um að fullnaðarkvittanir gangi framar meginreglu um fullar efndir samkvæmt samningum. Dómurinn snúi að afmörkuðu máli og afmarkaðri kröfugerð sem taki ekki til lánasamninga Lýsingar. Beðið sé niðurstöðu annarra dómsmála.

Fulltrúar fyrirtækisins hafa verið boðaðir á fund efnahags- og viðskiptanefndar í fyrramálið vegna þessarar afstöðu sinnar. Formaður nefndarinnar hefur áður sagt í viðtali við RÚV að fjármögnunarfyrirtækjum sé ekkert að vanbúnaði við að hefja endurútreikning. Afstaða Lýsingar komi á óvart.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi