Fullt samráð við helstu bandalagsþjóðir

26.03.2018 - 19:33
Mynd með færslu
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Mynd: RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að þótt íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að reka engan rússneskan sendifulltrúa úr landi taki þau fullan þátt í samstilltum aðgerðum gagnvart rússneskum yfirvöldum vegna taugaeitursárásarinnar í Salisbury á Englandi á dögunum. Aðgerðir Íslendinga séu í samræmi við stærð þjóðarinnar.

Sendiráð yrði illa starfhæft

Guðlaugur bendir á að Norðurlandaþjóðirnar og aðrar þjóðir sem hafa ákveðið að reka sendifulltrúa úr landi séu með miklu stærri sendiráð í Rússlandi en Íslendingar. „Við erum með þrjá útsenda starfsmenn í Moskvu. Ef 33 prósent af þeim – svo ég tali nú ekki um 66 prósent – yrðu send þaðan yrðum við auðvitað ekki með vel starfhæft sendiráð. Engar af bandalagsþjóðum okkar eru að loka sendiráðum sínum í Moskvu.“
-Var eitthvert samráð haft við Ísland þegar aðrar Evrópuþjóðir ákváðu að vísa sendimönnum úr landi?
„Við erum búin að vera í samráði við okkar helstu bandalagsþjóðir, og þá helst Norðurlandaþjóðirnar, í aðdraganda þessa.“

Skýr skilaboð til Rússa

-Er Evrópusambandið klofið í þessu máli?
„Þau lönd sem við berum okkur saman við eru algjörlega einhuga. Það er verið að senda rússneskum yfirvöldum mjög skýr skilaboð. Það er verið að draga línu í sandinn og við skulum vona að rússnesk yfirvöld sjái að sér.“
-Og þér finnst þetta sterk skilaboð og ótvíræð?
„Það er enginn vafi. Ég man í fljótu bragði ekki eftir sambærilegum skilaboðum.“
-Hvaða áhrif heldur þú að þessar aðgerðir hafi á Rússa?
„Ég vona að þegar þeir sjá þessa samstöðu og þessi skýru skilaboð sjái þeir að sér. Það er ekki bara um þetta grafalvarlega tilvik að ræða í Salisbury, heldur er þarna um margt fleira að ræða og þetta er skýrt; menn vilja ekki sjá meira af slíku.“

Ráðamenn sitja heima

-Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að fara ekki á HM í fótbolta í Rússlandi í sumar …
„Já, svo að við setjum það í samhengi þá er það sem skiptir máli er að Gylfi og félagar eru að fara á mæta ásamt aðdáendunum. Það mun gerast. Það sem skiptir minna máli er að Gulli sitji heima, þótt hann vildi vissulega vera þar.“
-Hvað með forsetann?
„Það er auðvitað haft samband við forsetann. Það er alveg skýrt að ríkisstjórnin og ráðamenn, þar með talinn forsetinn, fara ekki að öllu óbreyttu.“

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi