Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fullt af ferðamönnum en nær engin þjónusta

08.08.2018 - 18:00
Sóknarprestur Akureyrarkirkju segir kirkjuna skorta töluvert fjármagn til þess að geta staðið undir sér sem einn helsti áfangastaður ferðamanna á Akureyri. Tugir þúsunda ferðamanna skoða kirkjuna á ári hverju. Akureyrarstofa styrkti kirkjuna nýverið um 50.000 krónur til að taka á móti ferðamönnum. Ekkert almenningssalerni er í nágrenninu.

Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, hannaði Akureyrarkirkju og var hún vígð 1940. Hún hefur síðan verið helsta kennileiti bæjarins og vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Hún fær helstu fjárveitingar í gegn um sóknargjöld, en samkvæmt Fjársýslu ríkisins greiddu 7.189 manns í Akureyrarsókn 2017, alls tæpar 80 milljónir króna, sem fara í rekstur og laun starfsfólks.

Vill sinna ferðamönnum betur

Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur Akureyrarkirkju, segir þetta ekki nægja til að halda úti þjónustu við ferðafólk. 

„Við vildum gjarnan gera enn betur. Hafa kirkjuna meira opna, og lengur, bæta aðstöðuna. Það er sérstaklega aðkallandi að bæta salernisaðstöðuna,” segir hann. 

Þúsundir ferðamanna en ekkert klósett

Tugir þúsunda ferðamanna skoða kirkjuna á hverju ári, en eina almenningssalernið á Akureyri er í menningarhúsinu Hofi, niðri við höfn. 

„Það eru stundum þrjú skemmtiferðaskip hérna sem maður getur horft á af kirkjuhlaðinu og straumur fólks upp tröppurnar, og það eru kannski athafnir í gangi í kirkjunni og við getum ekki hleypt fólki á þetta eina klósett sem er hér. Það er leitt að geta ekki þjónustað fólkið betur.”

Segir bæjaryfirvöld ekki sýna nægan skilning

Svavar segir bæjaryfirvöld og ferðamálayfirvöld ekki sýna mikilvægi byggingarinnar nægan skilning. 

„Nei, mér finnst það ekki. Mér finnst að við sem erum hér í kirkjunni gera okkur grein fyrir því hvað þetta er vinsæll viðkomustaður og hvað tækifærin eru hérna mörg til þess að veita upplýsingar um annað sem hægt er að gera hér á Akureyri.”

Fengu 50.000 krónur frá Akureyrarstofu

Miklar skemmdir voru unnar á klæðningu kirkjunnar fyrir einu og hálfu ári og enn er verið að bíða eftir fjármagni fyrir viðgerðunum sem kosta á annan tug milljóna. Akureyrarstofa veitti kirkjunni nýverið 50.000 króna styrk vegna ferðamannastraumsins, en ýmsir sjóðir, fyrirtæki og stofnanir styrkja einnig starf hennar.