Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Full vinna að vera áhrifavaldur

04.01.2019 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Fyrirtæki nota æ oftar svokallaða áhrifavalda til þess að auglýsa vörur á samfélagsmiðlum. Að vera áhrifavaldur er ekki lengur bara áhugamál, heldur getur verið mikil og krefjandi vinna.

Með tilkomu samfélagsmiðla eins og Instagram og vinsælda vídeó-bloggara á Youtube leita fyrirtæki í síauknum mæli til svokallaðra áhrifavalda til þess að auglýsa vörur sínar. Andrea Guðmundsdóttir, doktorsnemi í alþjóðasamskipta- og fjölmiðlafræði í við City University of Hong Kong, hélt fyrirlestur á málstofu á vegum MBA við Háskóla Íslands í dag. Hún segir að þessi þróun sé í lagi, svo framarlega sem fylgjendum áhrifavaldanna sé ljóst að þeir fái greitt fyrir vörukynningar. 

„Fólk er orðið dálítið leitt á þessum hefðbundnu auglýsingum, í daglegu lífi eru sífellt auglýsingar allt í kringum okkur. Þetta er meira svona, þú treystir manneskjunni sem þú ert að fylgja og þá tekurðu þeirra ráðleggingum mun alvarlegar heldur en kannski almennum auglýsingum,“ segir Andrea.

Þetta geti verið tvíeggja sverð þar sem áhrifavaldurinn fær borgað fyrir að segja það sem hann segir. „Það er einmitt þessi stóra orðræða sem er í gangi, að þeir séu að fá borgað fyrir það sem við kannski tökum sem einlægum meðmælum. En að sama skapi eru áhrifavaldar mun hreinskilnari með það að þeir séu að fá borgað fyrir þetta og neytendur að sama skapi eru að verða meðvitaðri um það líka. Á meðan þessi skilningur er til staðar, þá held ég að þetta sé allt í góðu.“

Ríkisskattstjóri kortleggur störf áhrifavalda

Hjá Ríkisskattstjóra er unnið að því að kortleggja starfsvettvang áhrifavalda og hvernig greiðslum til þeirra er háttað. Snorri Olsen ríkisskattstjóri segir að gengið sé út frá því að menn gefi þessar tekjur upp til skatts, líkt og lög kveða á um. Þar sem þetta er tiltölulega nýr vettvangur mun embættið gefa út leiðbeiningar á næstunni til þeirra sem afla tekna með þessum hætti.

Margir sjá líf áhrifavalda í hillingum, enda oftast ákveðin glansmynd gefin á samfélagsmiðlum. Youtube-ari eða snappari gæti allt eins verið svar leikskólabarna í dag við spurningunni: Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór?

„Ég veit að ungu fólki finnst þetta áhugavert starf og ég skil það að mörgu leyti því þú getur að miklu leyti ráðið þínum tíma sjálfur og ráðið því efni sem þú ert að setja fram á netið,“ segir Andrea, en bendir á að það sé full vinna að vera áhrifavaldur. „Þetta er ekki bara áhugamál, það tekur mikla vinnu að búa til flottar myndir, að vinna þessar myndir, að klippa saman öll þessi myndbönd sem þau eru að gera og þetta er ekki bara lúxusinn að fá fríar vörur. Þú ert að vinna fyrir þessum vörum.“

Fékk ekki einu sinni frí í brúðkaupsferðinni

„Ég ræddi við áhrifavald sem er á einu ári búinn að fá 500 þúsund fylgjendur í Hong Kong. Hún sagðist ekki hafa tekið eina einustu klukkustund í frí í brúðkaupsferðinni því alla ferðina var hún að taka upp efni sem hún sýndi síðan á samfélagsmiðlum.“

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV